Félag kvenna í atvinnulífinu stendur fyrir ráðstefnuninni „Rétt upp hönd“ kl. 9:00 á Hilton Reykjavík Nordica. Viðburðurinn er sýndur í beinni útsendingu á mbl.is.
FKA heldur ráðstefnuna í samstarfi við velferðarráðuneytið, Sjóvá, TBW/Pipar, Deloitte og Morgunblaðið.
Á ráðstefnunni er fjallað um verkefnið Jafnvægisvogina en það er mælaborð með tölfræðiupplýsingum um jafnrétti, bæði í fyrirtækjarekstri sem og í opinberum störfum. Mælaborðið verður gert opinbert á heimasíðu FKA í tengslum við ráðstefnuna.
Hér má sjá nánari upplýsingar um Jafnvægisvogina.
Á ráðstefnuninni munu Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Ásmundur Einar Daðason jafnréttismálaráðherra halda erindi. Einnig mun Caroline Zegers, sem er einn af meðeigendum Deloitte, fjalla um jafnrétti í stjórnarherberginu út frá erlendum samanburði.
Þá munu Hermann Björnsson forstjóri Sjóvár og Margeir Ingólfsson, stjórnarformaður Hugsmiðjunnar, fjalla um jafnréttisáherslur sinna fyrirtækja. Listamenn frá Improv Iceland munu síðan taka saman niðurstöður ráðstefnunnar.