Finn Haugan, sparisjóðsstjóri Sparebank 1 SMN, fór mikinn í viðtali í norska dagblaðinu Dagens Næringsliv (DN) í síðustu viku. Haugan er maðurinn á bak við reyfarakaup hóps sparisjóða á norsku dótturfyrirtæki Glitnis í fjármálahruninu árið 2008 en það var Sparebank 1 SMN sem keypti stærstan hlut, eða 25%.
Óhætt er að segja að um brunaútsölu hafi verið að ræða. Kaupverðið nam 300 milljónum norskra króna og var aðeins 10% af bókfærðu eigin fé sem nam 3 milljörðum norskra króna haustið 2008.
Í viðtalinu kemur fram að það hafi komið stjórnendum sparisjóðanna mjög á óvart þegar norska fjármálaráðuneytið samþykkti kaupin og að kaupendur hefðu verið reiðubúnir að setja allt að þrefalt meira fé í fjárfestinguna. Að tíu árum liðnum hafa kaupendur bankans deilt með sér hagnaði upp á 4,6 milljarða norskra króna og öðrum virðisauka á kaupunum sem nemur rúmum 66 milljörðum íslenskra króna í dag.
Í greininni segir Haugan frá viðbrögðum norskra stjórnvalda og segir þau allt að því hafa klappað þeim á öxlina.„Við leystum vandamál sem hefði annars getað valdið fjárhagslegum óstöðugleika og rýrt tiltrú norskra banka. Upplifun mín var sú að okkur var nánast klappað á öxlina. Bankarnir fundu lausn án þess að nota sjóði ríkisins. Þeir einu sem töpuðu á þessu voru Íslendingar.“
Sjá fréttina í heild sinni í ViðskiptaMogganum í dag.