WOW Air átti frumkvæði að viðræðum um sameiningu Icelandair og WOW Air. Þetta segir Bogi Nils Bogason, starfandi forstjóri Icelandair, í viðtali við Rúv. Greint var frá kaupum Icelandair á öllu hlutafé í WOW Air í gær.
Bogi segir að viðræður hafi byrjað á föstudagskvöld og klárast um hádegi í gær. Hann segist ekki telja að WOW Air hafi verið á leiðinni í þrot.
„Samruninn sjálfur mun ekki hafa áhrif á verð eða neitt þess háttar,“ segir Bogi en áfram verði mikil samkeppni við stór erlend flugfélög.
„Það er annað í umhverfinu sem ræður því, kostnaðarhækkanir, samkeppni við önnur flugfélög og þess háttar.“