Samanlagður hagnaður viðskiptabankanna þriggja nam 30,8 milljörðum í ár. Þar af nemur hagnaður Landsbankans nærri helmingi upphæðarinnar. Er hagnaðurinn í ár 6,5 milljörðum minni en yfir sama tímabil í fyrra þegar hann nam 37,3 milljörðum. Mestur er samdrátturinn hjá Arion banka. Minnkar hagnaðurinn um 4,2 milljarða eða 40%. Samdrátturinn er 9% hjá Íslandsbanka og 8,3% hjá Landsbankanum.
Svipuð mynd birtist þegar horft er til þróunar á arðsemi eigin fjár bankanna þriggja. Á fyrstu 9 mánuðum þessa árs reynist hún aðeins 3,9% hjá Arion banka en bankinn hefur hlotið þung högg vegna greiðslustöðvunar United Silicon og Primera Air. Fer arðsemin úr 6,3% á fyrstu 9 mánuðum síðasta árs. Hún helst yfir 7% hjá Íslandsbanka en var 7,7% í fyrra. Hjá Landsbankanum eykst arðsemin úr 8,8% í 9,4% þrátt fyrir minni hagnað. Það skýrist af því að eigið fé bankans hefur lækkað talsvert vegna arðgreiðslna. Snorri Jakobsson, hjá fjármála- og hagfræðiráðgjöf Capacent, segir fátt annað í spilunum hjá viðskiptabönkunum en hægur vöxtur eða samdráttur á komandi árum.
„Þegar rýnt er í reikninga bankanna og þróunina þá blasir það einhvern veginn við. Þeir eru í senn of stórir og of litlir fyrir hagkerfið. Það er mikil stærðarhagkvæmni í bankarekstri og þeir eru litlir en þeir geta ekki stækkað.“ Segir Snorri að fjármálakerfið sé á fleygiferð og miklar breytingar framundan þar sem samkeppnin harðnar ár frá ári.