„Þessu máli verður einn daginn að ljúka“

Þorsteinn Már Baldvinsson sést hér mæta til fundarins í Seðlabankanum.
Þorsteinn Már Baldvinsson sést hér mæta til fundarins í Seðlabankanum. mbl.is/​Hari

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, sagði eftir fund með bankaráði Seðlabankans að fundurinn hafi fyrst og fremst verið upplýsingafundur. Skoðun hans á því að Már Guðmundsson seðlabankastjóri eigi að víkja úr embætti hefur ekki breyst.

Bankaráð boðaði Þorstein og aðra fulltrúa Samherja til fundar í Seðlabankanum klukkan 14:00 í dag. Fundurinn var rúmlega tveggja tíma langur og sagði Þorsteinn að Samherjafólk hefði komið sínum sjónarmiðum á framfæri við bankaráð.

Hæstirétt­ur kvað upp dóm í máli SÍ gegn Sam­herja 8. nóvem­ber. Þar var staðfest niðurstaða Héraðsdóms Reykja­vík­ur um að fella úr gildi ákvörðun SÍ frá 1. sept­em­ber 2016 um að Sam­herji skuli greiða 15 millj­ón­ir kr. í stjórn­valds­sekt til rík­is­sjóðs vegna brota á regl­um um gjald­eyr­is­mál.

„Þeir boðuðu til fundarins vegna skýrslu sem þeir eru að vinna að beiðni forsætisráðherra,“ sagði Þorsteinn og bætti við að bankaráð ætti að skila skýrslunni 7. desember.

Hafði ekki komið í bankann í sex og hálft ár

Spurður hvort fundurinn hefði breytt einhverju, en það hefur andað köldu milli Samherja og Seðlabankans síðustu misseri og ár, svaraði Þorsteinn því ekki beint. Hann sagðist þakklátur fyrir að hafa fengið tækifæri til að hitta bankaráðið.

Ég hef ekki komið inn í bankann í sex og hálft ár. Ég þakka fyrir að hafa fengið að koma okkar sjónarmiðum á framfæri við bankann,“ sagði Þorsteinn. Aðspurður sagði hann skoðun sína á seðlabankastjóra ekki hafa breyst:

„Ég hef ekki breytt um þá skoðun. Það hef ég sagt en núna ætla ég að bíða eftir skýrslu bankaráðs til forsætisráðherra. Við skulum sjá hvað kemur út úr henni.“

Doka við eftir skýrslunni

Áður hefur verið greint frá því að Samherji undirbúi skaðabótamál á hendur Seðlabanka vegna rannsóknar á meint­um brot­um fyr­ir­tæk­is­ins á regl­um um gjald­eyr­is­mál. „Það hefur verið unnið í þeim málum en við munum doka við og sjá hvað kemur úr þessari skýrslu. Þessu máli verður einn daginn að ljúka.“

Þorsteinn kvaðst efast um orð Más seðlabankastjóra um að hann hafi viljað fara með málið í sáttaferli. Samherjafólk hafi óskað eftir því lögfræðiáliti sem Már segir skoðun sína byggða á. „Okkur var svarað af hálfu aðstoðarseðlabankastjóra að við hefðum fengið þessa skýrslu, ef við skildum rétt, sem var vitnað í. Þar segir að að það sé ósennilegt að málið vinnist fyrir dómstólum en skýrslan er frá 2014,“ segir Þorsteinn og bætir við að hann hafi séð frétt á mbl.is fyrr í dag þar sem segir að skýrslan sé ekki skrifleg, heldur munnleg.

„Ég veit ekki hvað er í því máli. Hún er skrifleg hjá aðstoðarseðlabankastjóra og munnleg hjá seðlabankastjóra. Ég veit ekkert hvað er rétt í því.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK