Þrátt fyrir lítinn áhuga Íslendinga á hjólreiðum framan af hefur sá áhugi aukist mikið undanfarin ár. Þetta sést best á þeim fjölda sem í dag notar hjól til að fara leiða sinna, fjölgun þeirra sem æfa og stunda líkamsrækt hjá hjólreiðafélögum og fjölda hjólakeppna og þátttakenda í hjólakeppnum á ári hverju. En það eru ekki bara hjólreiðarnar sjálfar sem njóta vinsælda. Undanfarin ár hafa nokkrir byrjað að hanna og smíða eigin hjól sem og setja saman eigin hjólagjarðir. mbl.is athugaði aðeins með þetta áhugamál, sem jafnvel er orðið að ágætis atvinnurekstri.
Í fyrra kláraði stálsmiðurinn og tæknifræðingurinn Kristmundur Guðleifsson smíði á sínu fyrsta götuhjóli, en hann smíðar hjól undir nafninu Svana cycles. Nú eru hjólin orðin þrjú talsins og eitt fjallahjól er í hönnunar- og framleiðsluferli.
Kristmundur segir í samtali við mbl.is að hann hafi lengi gengið með þessa hugmyndi í maganum. Hann hafi verið á hjóli frá því að hann var lítill strákur og hugmyndin að smíða eigið hjól hafi alltaf heillað. Hann lét svo verða af því í fyrra og úr varð fyrsta hjólið sem hann notar sjálfur fyrir daglegt amstur.
„Ég fann eftir að ég smíðaði fyrsta hjólið að mig langaði að stunda þetta í meira mæli,“ segir Kristmundur og síðan þá hefur hann smíðað tvö götuhjól til viðbótar og eitt tvímenningshjól. Hann segir reynsluna vera mjög góða og hjólin komið vel út hjá þeim sem hafi prófað þau.
Í sumar hafði svo samband við hann 15 ára strákur frá Njarðvík sem hefur áhuga á hjólasmíði og vildi gera eigið fjallahjól. Hafa þeir síðan þá saman unnið að hönnun þess og segir Kristmundur að verkið sé í vinnslu. Um sé að ræða fulldempað hjól sem verði vonandi klárt fljótlega.
Hjólasmíðin er fyrst og fremst áhugamál hjá Kristmundi og telur hann ólíklegt að hann fari í einhverja raðframleiðslu. Hann sé miklu meira spenntur fyrir að vera í sérsmíði og koma til móts við óskir hvers og eins og smíða eitthvað einstakt. „Ef það eru ánægðir kúnnar þá er tilganginum náð,“ segir hann og vonast til að geta hægt og rólega byggt upp orðspor í þessum geira.
Í Skerjafirði fyrir rúmlega ári síðan kom Þjóðverjinn Jacek Pol upp viðgerðaaðstöðu fyrir hjól hjá veitingastaðnum Bike cave sem lengi hefur verið eitt helsta athvarf mótorhjóla og hjólafólks. Hann segir í samtali við mbl.is að upphaflega hafi hann komið hingað til lands í ferðalag með kærustunni sinni. Þau hafi orðið heilluð af landinu og kærastan, sem vinnur í tölvugeiranum, viljað flytja hingað. Hann hafi látið til leiðast og í september í fyrra voru þau flutt hingað.
Sjálfur er Jacek með meistaragráðu í hjólahönnun. Hann segist hafa haft áhuga á hjólum frá því á barnsaldri, en um aldamótin hafi hann unnið sem hjólasendill í Frankfurt þar sem hann er alinn upp. Hann hafi í þurft að læra að gera við eigið hjól og fljótlega fór það að vinda upp á sig og fór hann að gera við hjól annarra sendla eða jafnvel að byggja upp hjól fyrir þá.
Þetta leiddi til þess að hann opnaði búð og verkstæði í Frankfurt þar sem hann var aðallega í að taka eldri hjólastell af gömlum götuhjólum og setti þau upp sem til dæmis cyclocross hjól eða „single-speed“ hjól. Sótti hann sér fagmenntun í kjölfarið og í því námi þurfti hann að hanna sitt eigið hjól frá grunni. Úr varð hjól sem hann í dag kallar Hjólhest og bauð hann viðskiptavinum upp á að fá slík stell í mismunandi stærðum.
Eftir að hann flutti til Reykjavíkur hóf hann sem fyrr segir viðgerðaþjónustu og þá segist hann hafa boðið upp á sérsmíði á hjólum. Hann og kærastan hafi þó nýlega ákveðið að fara tímabundið aftur til Frankfurt eftir að þau eignuðust sitt fyrsta barn, enda búi öll fjölskyldan þar nærri. Hann segir þau þó ætla að koma aftur í apríl og þá fari þessi þjónusta á fullt aftur. Hann muni sjálfur taka öll mál af viðskiptavinum og setja það upp miðað við stellið sem hann hefur hannað, en láta svo hjólasmið í Evrópu framleiða stellið.
Lauf, sem áður hét Lauf forks, er það fyrirtæki sem hefur tekið hjólahönnun og hjólaframleiðslu lengst hér á landi. mbl.is hefur margoft fjallað um það hvernig fyrirtækið þróaðist úr því að framleiða nýstárlega demparagaffla yfir í að framleiða eigið hjól sem kom á markað fyrir um ári síðan. Yfir 500 hjól hafa selst af því hjóli á árinu auk hundruð demparagaffla og er veltan talin í hundruð milljóna.
Hjólið sem þeir framleiða er svokallað malarhjól (e. gravel bike) sem hefur hlotið mjög góða dóma í erlendum fagtímaritum á árinu. Er hjólið byggt með samskonar demparagaffli og fyrirtækið byggðist upp í kringum, en þó er hann minni og hentar þannig malarhjólreiðum betur en fjallahjólreiðum.
Benedikt Skúlason, annar stofnenda og framkvæmdastjóri fyrirtækisins, sagði í samtali við mbl.is í síðasta mánuði að framundan á næsta ári væri að setja nýtt hjól á markaðinn. Verður það líka malarhjól, en í ódýrari verðflokki. Þegar hafa þeir náð samningum við yfir 50 söluaðila í Bandaríkjunum og sagðist Benedikt telja að með nýju hjóli sem er í lægri verðflokki þá séu þeir að margfalda mögulegan kaupendahóp. Stefna þeir á að tvöfalda veltuna á komandi ári.
Samhliða því að smíða demparagaffla og hjól hafa Lauf-liðar kynnt nýja hjólreiðakeppni sem haldin verður næsta sumar. Verða þar farnir allt að 200 kílómetrar um Fjallabak á vegum og slóðum.
Á komandi ári er von á að nýtt hjólamerki komi á markað undir nafinu Katla. Á bak við það stendur Aske Anker Bendtsen, en hann er Dani sem flutti fyrir fjórum árum til Íslands ásamt kærustu sinni sem er íslensk. Hann segir að hjól hafi verið stór hluti af lífi hans frá því að hann var lítill og í dag sé áhugi hans einnig á hjólaíþróttinni sem og tæknilegu hlið hjólanna sjálfra. „Ég er orðinn mikið hjólanörd og fylgist með allri nýrri tækni í hjólabransanum og fylgi öllum hjólakeppnum,“ segir Aske við mbl.is.
Upphaflega stofnaði hann merkið Kötlu í stofunni heima hjá sér en er nú kominn með aðstöðu í Ármúlanum. Segir hann að hjólaiðnaðurinn horfi til þess að gera hjól sem séu sem hröðust og léttust hverju sinni, en það endi oft með að kosta of mikið fyrir hinn venjulega hjólreiðamann. Hann leggi því áherslu á að gera hjól með sem mestum notkunarmöguleikum í ólíkum aðstæðum. Þá segist hann einnig leggja mikla áherslu á auðvelt viðhald til framtíðar.
Aske segist vinna við Kötlu hugmyndina í frítíma sínum og voru nokkur eintök af frumgerð hjólsins frumsýnd fyrr á árinu. Strax á næsta ári segist hann svo eiga von á því að hjólin komi á almennan markað. Stefnir hann á að vera með eina útfærslu af götuhjóli og aðra af marlarhjóli. Þá segist hann hafa fengið auk mann til liðs við sig sem vinni nú að því að koma fjallahjóli á markaðinn og standa vonir til þess að það verði komið í sölu árið 2020.
Aske vinnur í dag meðfram þessu áhugamáli sínu í upplýsingatæknigeiranum, en hann segist vona að í framtíðinni geti hann lifað á því að framleiða og selja Kötlu hjól.
Í þessari samantekt hefur sjónunum verið beint að framleiðslu á hjólum, en þó var ekki hægt að horfa framhjá því verkefni sem Jenni Erluson hefur unnið að, en það verður að teljast það sérhæfðasta sem hér er fjallað um. Hefur hann undanfarin ár sett saman hjólagjarðir til eigin nota og síðasta árið hefur hann einnig selt slíkar gjarðir undir merkjum Þriðja hjólsins.
„Þetta hefur blundaði í mér alla tíð,“ segir Jenni spurður út í þetta áhugamál sitt. Hann hafi verið tengdur hjólageiranum frá því að hann var barn og unnið á hjólaverkstæði þegar hann var yngri og fyrstu gjörðina hafi hann sett saman snemma á tíunda áratugnum. Jenni er menntaður vélfræðingur og vinnur við metanframleiðslu hjá Sorpu. Hann segist alla tíð hafa verið spenntur fyrir járnsmíði og fyrir stuttu hafi hann svo ákveðið að demba sér út í gjarðasamsetningar af meiri krafti.
Þar hafi meðal annars spilað inn í að þessi hluti markaðarins hafi seti á hakanum hér á landi. „Ég vildi taka þetta á næsta level,“ segir hann um að setja af stað Þriðja hjólið.
Jenni viðurkennir að þetta sé mjög sérhæfð grein innan hjólaframleiðslunnar. Hins vegar er um að ræða gríðarlega nákvæmnisvinnu að ræða þar sem lengd teina hleypur á 2 millimetrum og nákvæmni við að hafa gjarðirnar réttar hleypur á tíunda hluta úr millimetra. Þá fylgi bókhald sérhönnuðum gjörðum með upplýsingum um teinana og aðra íhluti, hversu mikil hersla sé á teinunum og aðrar upplýsingar sem ekki fáist með hefðbundnum gjörðum.
Þessi nákvæmni hafi meðal annars heillað hann og segir hann að góðar gjarðir séu í raun besta uppfærsla sem fólk geti fengið sér á hjól. Segir hann slíkar gjarðir oft á tíðum léttari en fjöldaframleiddar gjarðir og þá séu þær sterkari. Til viðbótar við þetta segir Jenni að hann hafi í gegnum árin hugað að því að aðlaga gjarðir íslenskum aðstæðum, meðal annars með það fyrir augum að passa upp á að salt festist minna í þeim.
Markaðurinn fyrir sérhannaðar gjarðir er nokkuð lítill hér á landi að sögn Jenna. Bæði sé það vegna þess að fáir átti sig á því hversu góð uppfærsla sérhannaðar gjarðir geti verið og þá sé kostnaðurinn einnig þó nokkur, en kostnaður við sérhannaðar gjarðir, líkt og við dýrustu gerðir af almennum gjörðum, getur verið nokkur hundruð þúsund.
Efnið sem Jenni vinnur með af ýmsum toga. Þannig eru teinarnir ryðfríir og hringurinn sjálfur annað hvort úr áli eða koltrefjum. Spurður hvort hann sjái þetta áhugamál fyrir sér sem framtíðarstarf segir Jenni að það sé ólíklegt. Hann hafi hins vegar mjög gaman af þessu og vilji halda áfram á þeim stað sem hann sé í dag.