Vaxandi óstöðugleiki innan evrusvæðisins gæti leitt til þess að það liðist í sundur á þessu ári að mati bresku hugveitunnar Centre for Economic and Business Research (CEBR).
Þetta er meðal þess sem fram kemur í spá CEBR fyrir árið 2019 en hugveitan er ein sú virtasta á sviði efnahagsmála samkvæmt frétt breska dagblaðsins Daily Telegraph.
Ennfremur segir í spánni að ólíkar aðstæður innan evrusvæðisins muni annað hvort leiða til efnahagslegs samruna innan svæðisins eða til þess að það liðist í sundur.
Þá segir CEBR að hugsanlega væri hægt að fresta vandanum um eitt eða tvö ár en taka þyrfti á honum fyrr en síðar. Er þar ekki síst vísað til stöðu mála á Ítalíu.
Stjórnvöld á Ítalíu hafa deilt við Evrópusambandið um ríkisfjármál landsins en sambandið neitaði að leggja blessun sína yfir síðasta fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar.
Ráðamenn á Ítalíu létu loks undan og gerðu breytingar á frumvarpinu samkvæmt vilja Evrópusambandsins en deilan snerist einkum um mikinn fjárlagahalla ríkissjóðs.