Árið 2018 var jákvætt á íslenskum hlutabréfamarkaði, að sögn Magnúsar Harðarsonar, forstöðumanns viðskiptasviðs Kauphallarinnar. Hann segir að velta með hlutabréf hafi þó verið um fimmtungi minni en árið 2017. „Helsta ástæða þess er að lífeyrissjóðirnir hafa verið að beina fjárfestingum sínum í meira mæli á erlenda markaði. Einnig hefur verðþróun verið flöt og aðeins í mínus fyrir árið í heildina. Fólk virðist vera að bíða eftir því að markaðurinn hefji sig til flugs á ný,“ segir Magnús.
Spurður um helstu vonbrigði ársins og hvað helst hafi komið á óvart nefnir Magnús að mest hafi komið á óvart hvað viðskiptin minnkuðu mikið á milli ára. Helstu vonbrigðin snúi að því að innflæðishöft séu enn fyrir hendi á erlenda fjárfestingu en þau hafi skaðleg áhrif á skuldabréfamarkaðinn. „Þetta eru ákveðin vonbrigði því krónan hefur veikst talsvert, og vaxtastig í Bandaríkjunum hefur hækkað. Það blasir eiginlega við að það eru engar ástæður til þess að viðhalda hér höftum, en samt er þeim viðhaldið.“
Magnús segir að m.a. vegna haftanna séu viðskipti á skuldabréfamarkaði í sögulegri lægð. „Við erum eiginlega stödd í mestu rólegheitum frá því um aldamót. Nú þegar lífeyrissjóðir eru farnir að fjárfesta meira erlendis er svo mikilvægt að aðrir fjárfestar taki við þeirra hlutverki. Það hefur því áhrif að erlendum fjárfestum sé ekki hleypt inn óheft.“
Sjá fréttina í heild sinni í ViðskiptaMogganum í dag.