Þann 10. nóvember árið 2014 kynnti þáverandi ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hina svokölluðu Leiðréttingu en henni var ætlað að bæta stöðu þess fólks sem verið hafði með verðtryggð húsnæðislán þegar bankahrunið varð árið 2008. Hafði höfuðstóll lánanna hækkað mjög í kjölfar þeirrar verðbólgu sem fylgdi gjörningaveðrinu á fjármálamörkuðum.
Í kynningu stjórnvalda var miðað við að aðgerðir þær sem boðaðar voru myndu hafa áhrif til lækkunar höfuðstóls fyrrnefndra lána sem næmi 150 milljörðum króna. Um 80 milljarðar kæmu í formi beinnar lækkunar og 70 milljarðar vegna heimildar sem opnað var á til þess að fólk gæti nýtt séreignarsparnað sinn, skattfrjálst, til að greiða inn á lán sem það á þeim tíma var að greiða af. Litið til upphaflegra áætlana var miðað við að höfuðstóll verðtryggðra lána myndi lækka sem næmi fyrrnefndum 150 milljörðum á þriggja ára tímabili eða fram á árið 2017. Árið 2016 var hins vegar ákveðið að framlengja heimildina fram á mitt ár 2019 og því ljóst að verkefnið rennur sitt skeið innan skamms.
Hins vegar var í tengslum við framlenginguna einnig kynnt leið fyrir þá sem hugðu á fyrstu kaup á fasteignamarkaði. Byggist hún á heimild til allt að 10 ára til að nýta séreignarsparnað til kaupanna. Sú aðgerð mun því ekki renna sitt skeið fyrr en að sjö árum liðnum. Samkvæmt upplýsingum sem ViðskiptaMogginn hefur aflað hjá embætti Ríkisskattstjóra, sem annast hefur utanumhald varðandi Leiðréttinguna, kemur fram að frá upphafi verkefnisins og til áramóta hafi 55,85 milljörðum króna verið ráðstafað inn á húsnæðislán á grundvelli hennar.
Sjá fréttina í heild sinni í ViðskiptaMogganum í dag.