Tilkynnt var um mikinn niðurskurð hjá bílaframleiðendunum Jaguar Land Rover (JLR) og Ford í vikunni. Þúsundum manna var sagt upp og mikil stefnubreyting er í kortunum í átt til framleiðslu á grænni valkostum og sjálfkeyrandi bílum. Sú stefnubreyting er afar kostnaðarsöm og felur ekki í sér mikinn ávinning til skemmri tíma að sögn Egils Jóhannssonar, forstjóra Brimborgar, bílaumboðs fyrir Ford.
„Þetta hefur legið í loftinu í marga mánuði og þetta er drifið af þeirri byltingu sem er fram undan í bílgreininni. Sjálfkeyrandi bílar og rafmagnsbílar. Það eru svo ofboðslegar fjárfestingar fram undan,“ segir Egill og nefnir að óvíst sé hvenær fjárfestingin fáist greidd til baka. Egill segir forráðamenn Ford ekki sjá fyrir sér að fjárfestingarnar gangi upp nema fjárfestingarkostnaði verði dreift á fleiri einingar. „Menn eru að fara í alls konar samstarf til þess að dreifa áhættunni. Ford og Volkswagen munu kynna í næstu viku risasamstarf á þessu sviði.“
Hann segir að til skamms tíma hafi þetta engin áhrif á Brimborg. „En til lengri tíma eru svona hlutir bara góðir. Það er verið að gera fyrirtækið samkeppnishæfara að því gefnu að breytingarnar takist.“ Egill nefnir einnig í þessu samhengi breytingar á neyslumynstri fólks sem kaupir í auknum mæli jeppa í stað fólksbíla og harða samkeppni í Evrópu. „Og ekki bætist það við Brexit. Breski markaðurinn er einn af þessum stóru mörkuðum,“ segir Egill, en þúsundum var sagt upp hjá Ford í Bretlandi í vikunni.
Loftur Ágústsson, markaðsstjóri BL, segir framleiðslubreytingar kostnaðarsamar og flóknar en 4.500 var sagt upp hjá JLR í vikunni.
„Við höfum orðið vör við það með bæði rafmagnsbíla og tengiltvinnbíla að framleiðslunni á þessum bílum hefur oftar en ekki seinkað miðað við þær upplýsingar sem fyrst voru gefnar út af framleiðendum.“ Aðspurður nefnir hann t.a.m. að framleiðslan á rafhlöðum í bílana sé að öllum líkindum flöskuháls þegar kemur að því að anna eftirspurninni.
Samkvæmt tölum frá Bílgreinasambandinu voru nýskráningar bifreiða 17.979 í fyrra en 21.287 árið 2017 og drógust saman um 15,6%.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.