„Ég er mjög bjartsýnn á að þetta takist allt saman,“ sagði Skúli Mogensen, forstjóri WOW air, í samtali við Spegilinn á RÚV. Greint var frá því fyrr í dag að skuldabréfaeigendur félagsins hafi samþykkt skilmála skuldabréfa í flugfélaginu.
Indigo Partners hefur frest til loka febrúar til að gera upp hug sinn varðandi þátttöku í WOW air en félagið mun eignast 49% hlut í flugfélaginu ef kaupin ganga eftir. Skúli segir að það komi í ljós hvenær ferlið klárast en þeir ætli sér að ganga frá málum fyrir tilsettan tíma.
Michael O´Leary, forstjóri Ryanair, sagði í morgun að flugfargjöld muni halda áfram að lækka og setti WOW air í flokk með þeim evrópsku flugfélögum sem mega síst við því.
Skúli segist sammála því að fargjöld muni halda áfram að lækka og að WOW sé vel tilbúið að taka þátt í því og bjóða lægri fargjöld.