Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, hafði frumkvæði að því að laun hennar yrðu lækkuð um 14,1% í nóvember síðastliðnum, niður í 4,2 milljónir króna.
Þetta kemur fram í tilkynningu sem barst til fjölmiðla frá Eddu Hermannsdóttur, forstöðumanni markaðs- og samskiptasviðs bankans, og send var út „í ljósi umræðunnar síðustu daga“.
„Heildarlaun bankastjóra Íslandsbanka hafa hækkað um 4,6% síðastliðin tvö ár en á sama tíma hefur launavísitala hækkað um 13,2%,“ segir í tilkynningunni frá íslandsbanka, en Edda segir í svari við fyrirspurn mbl.is að mánaðarlaun Birnu séu nú 4,2 milljónir króna, eftir lækkunina.
Þau eru því 400.000 kr. hærri en mánaðarlaun Lilju Bjarkar Einarsdóttur bankastjóra Landsbankans, en laun hennar hafa þó hækkað um 82% frá því launaákvarðanir æðstu stjórnenda bankans voru færðar undan kjararáði árið 2017. Báðir þessir bankar eru að mestu eða öllu leyti í eigu ríkisins.
Ákvörðunin um launalækkunina var að sögn Eddu „tekin í ljósi stöðunnar í íslensku atvinnulífi og kjaraviðræðna sem standa yfir,“ en í tilkynningunni er jafnframt tekið fram að laun bankastjóra og framkvæmdastjóra Íslandsbanka muni ekki hækka á þessu ári, né taka samningsbundnum hækkunum ef til þeirra kemur.