Ekki búast við sömu vöxtum og í Svíþjóð

Kristrún Tinna Gunnarsdóttir, hagfræðingur hjá alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækinu Oliver Wyman í …
Kristrún Tinna Gunnarsdóttir, hagfræðingur hjá alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækinu Oliver Wyman í Stokkhólmi og einn höfunda hvítbókar um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. mbl.is/Eggert

Vaxtamunur íslensku bankanna er að meðaltali um 3% og með því hæsta sem gerist í Evrópu. Á meðan er vaxtamunurinn um 1% hjá stóru bönkunum á Norðurlöndunum og hjá minni norrænum bönkum sem eru sambærilegir við þá íslensku er vaxtamunurinn um 2%. Lækki vaxtamunur íslensku bankanna getur það þannig skilað sér annaðhvort í lægri útlánsvöxtum eða hærri innlánsvöxtum sem nemur um einu prósentustigi. Þetta segir Kristrún Tinna Gunnarsdóttir, hagfræðingur hjá alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækinu Oliver Wyman í Stokkhólmi og einn höfunda hvítbókar um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið.

Vextirnir áfram hærri þrátt fyrir ókeypis bankaþjónustu

Kristrún var einn frummælenda á fundi Fjármálaeftirlitsins um samkeppni á fjármálamarkaði í morgun. Kristrún lagði áherslu á mikilvægi þess að gera greinarmun á útlánavöxtum og vaxtamun. Í erindi hennar kom fram að ekki væri hægt að búast við því að hagræðing í bankakerfinu skilaði sömu útlánavöxtum hér á landi og til dæmis í Svíþjóð þar sem íbúðalánsvextir eru um 1%. Stýrivextir Seðlabankans eru um þessar mundir 4,5% og mynda þeir eins konar gólf fyrir útlánavexti. Jafnvel þótt veitt væri ókeypis bankaþjónusta á Íslandi þar sem enginn væri vaxtamunurinn lækkuðu útlánavextir að öllum líkindum ekki niður fyrir þetta gólf.

Sagði hún greinileg tækifæri til að draga úr vaxtamun, en það væri í raun mælikvarði á skilvirkni bankastarfseminnar. Þar væri meðal annars horft til þess að lækka kostnað með sjálfvirkni, kröfu um hátt eiginfjárhlutfall, samnýtingu grunninnviða í fjármálakerfinu og lækka sérstakan bankaskatt. Því virkari sem samkeppni og neytendaaðhald eru þeim mun meiri líkur á að ábati hagræðingar renni til viðskiptavina.

Samkeppnin mun minni á innlánahliðinni

Í samtali við mbl.is segir Kristrún að í dag ríki talsverð samkeppni á innlendum markaði með íbúðalán og á útlánavaxtamarkaðinum. Hins vegar er margt sem bendi til þess að samkeppnin sé mun minni á innlánahliðinni. Sagði hún að þegar horft væri til þess hversu dýrir bankar væru þyrfti að horfa á þennan mun milli innlánahliðarinnar og útlánahliðarinnar.

Bendir Kristrún á að í dag séu bara fjórir bankar og fjórir sparisjóðir sem megi taka við innlánum. „Þessir aðilar eru svokallaðar innlánastofnanir og hafa því leyfi Fjármálaeftirlitsins til þess að taka við tryggðum innstæðum. Það er nokkuð erfitt að komast í þann hóp en engin ný leyfi hafa verið gefin út síðastliðinn áratug,“ segir hún. Til viðbótar hafi Íslendingar verið áhættufælnir síðan í hruninu og lítið fjárfest í verðbréfum eða fjárfestingasjóðum og því er meira framboð af innstæðum en ella. Þar af leiðandi er sú staða uppi hér á landi að innlánsvextir eru talsvert lægri en stýrivextir. „Margt bendir því til þess að álagning bankanna endurspeglist í sumum tilvikum frekar í lægri innlánavöxtum en hærri útlánavöxtum,“ segir hún.

Staða innlána „einsdæmi í heiminum

Kristrún segir að í Evrópu, þar sem vaxtastig sé reyndar nálægt 0%, séu innlánsvextir oftast hærri en stýrivextir. Í Noregi sem dæmi séu stýrivextir um 0,75% og innlánsvextir um á bilinu 0,6%-1,5% þar sem flestir bankarnir í Noregi eru að borga vexti af innlánum sem eru hærri en stýrivextir. „Sú staða sem er á Íslandi núna að innlán séu ódýrasta fjármögnun bankanna er að ég held einsdæmi í heiminum. Innlán eru yfirleitt frekar dýr fjármögnun sem er eftirsóknarverð og því samkeppni um sparifjáreigendur. En á Íslandi er það ódýrara en skuldabréfaútgáfa,“ segir Kristrún.

Segir hún þessa samþjöppun á innistæðum hjá bönkunum helst geta breyst með innkomu nýrra innlánastofnana eða ef sparifjáreigendur færu í auknum mæli að nýta sér aðra sparnaðarvalkosti þannig að hreyfing og aukin samkeppni kæmi á markaðinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK