Heildarframboð flugsæta hjá WOW air í sumar mun dragast saman um 44% samkvæmt sumaráætlun Keflavíkurflugvallar sem kynnt var í dag. Þegar horft er til allra flugfélaga sem ætla að fljúga hingað til lands nemur samdrátturinn um 800 þúsund flugsætum og fer úr 7,9 milljónum í fyrra niður í 7,1 milljón. Tölurnar gilda fyrir tímabilið apríl til október.
Samkvæmt áætluninni er Icelandair með mesta framboð flugsæta í sumar, samtals rétt tæplega 4 milljónir og eykst framboðið úr 3,5 milljónum í fyrra, eða um 14%. Hjá WOW verður sætaframboðið 1,52 milljónir og lækkar úr 2,73 milljónum í fyrra. Nemur fækkunin sem fyrr segir 44%.
Íslensku flugfélögin tvö bjóða upp á langflest flugsætin hingað til lands eins og áður, en framboð þeirra er um 78% af heildarframboðinu.
Hjá öðrum flugfélögum sem fljúga um Keflavíkurflugvöll verður samanlagt um 4% samdráttur. Þriðja stærsta félagið er Wizz air með 330 þúsund flugsæti og eykst framboðið um 40 þúsund frá því í fyrra, eða um 15%. SAS bætir einnig við sig og fer upp fyrir EasyJet með 192 þúsund flugsæti, eða 22% aukningu. EasyJet dregur hins vegar saman seglin og fækkar flugsætum um 11% og sömuleiðis Norwegian um 14%, en flugsæti þess félags verða samtals 136 þúsund í sumar.
Bandaríkjamarkaður hefur verið sá markaður sem hefur vaxið hvað mest undanfarin ár. Í sumar er hins vegar gert ráð fyrir um 29% samdrætti í framboði á flugsætum þaðan og fer það niður í 1,78 milljónir úr 2,5 milljónum í fyrra.
Einnig er áætlaður samdráttur frá Bretlandi, eða um 22% og að fjöldi flugsæta verði 770 þúsund í sumar í stað 990 þúsund í fyrra. Sætum frá Þýskalandi mun þó fjölga um 10% og Kanada um 18%.
Sætaframboð eykst á leiðum til og frá Kaupmannahöfn, eða um 9% milli ára. Þá eykst framboðið um 16% til og frá Ósló. Það dregst saman um 18% til og frá JFK-flugvelli í New York og um 9% til og frá París.