Fulltrúar Indigo Partners krefjast þess að skuldabréfaeigendur WOW air taki á sig tugprósenta afskriftir og að endanlegur hlutur Skúla Mogensen verði minni en áður hefur verið rætt um. Skilyrðin ollu Skúla miklum vonbrigðum. Þetta kemur fram í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins í dag.
Skuldabréfaeigendur WOW air, sem fjárfestu fyrir samtals 60 milljónir evra, jafnvirði 8,2 milljarða króna, í skuldabréfaútboði flugfélagsins síðasta haust, gætu þurft að samþykkja tugprósenta afskriftir af höfuðstól bréfanna til þess að kaup Indigo Partners í félaginu nái fram að ganga, samkvæmt heimildum Markaðarins.
Því til viðbótar hefur bandaríska fjárfestingafélagið krafist þess að endanlegur eignarhlutur Skúla Mogensen, forstjóra og stofnanda WOW air, í félaginu verði mun minni í kjölfar viðskiptanna en áður hefur verið rætt um og í raun hverfandi.
Kröfur Indigo Partners komu Skúla verulega á óvart, að sögn þeirra sem þekkja vel til mála, og ollu honum miklum vonbrigðum. Hann hefði enda staðið í þeirri trú að aðilar væru langt komnir með að ganga frá viðskiptunum, að því er segir í frétt Markaðarins en fréttina er hægt að lesa í heild hér.