Samkvæmt yfirlýsingu sem send var í gegnum Kauphöllina í Stokkhólmi nú í morgun er kallað eftir því að þeir sem fjárfestu í skuldabréfum WOW air í september síðastliðnum, gefi eftir vaxtagreiðslu sem félagið á að inna af hendi þann 24. mars næstkomandi og varðar áfallna vexti síðustu þriggja mánaða.
Greint var frá því á forsíðu ViðskiptaMoggans á fimmtudag að vaxtagreiðslan, sem nemur um 150 milljónum íslenskra króna, kunni að verða félaginu þung í skauti en það hefur dregið greiðslur til margra birgja sinna á undanförnum mánuðum. Vísir greindi frá því fyrr í vikunni að félagið hefði lent í vanskilum með lífeyrisiðgjöld af launum starfsmanna sinna síðustu þrjá mánuði.
Líkt og fram kom í morgun byggir ný tillaga WOW air til skuldabréfaeigenda á því að höfuðstóll skuldabréfanna sem seld voru í september, fyrir andvirði 50 milljónir evra, verði færður niður um helming og að lengt verði í flokknum þannig að hann greiðist upp á fimm árum í stað þriggja eins og stefnt var að. Þá verði vaxtakjörin á bréfunum lækkuð úr 9% í 7%.
Í fyrnefndri yfirlýsingu kemur fram að þessi skilyrði, sem lögð verða formlega fyrir skuldabréfaeigendurna, sé forsendan fyrir því að bandaríski fjárfestingarsjóðurinn Indigo Partners leggi WOW air til allt að 90 milljónir dollara í formi hlutafjár og lánveitingar með breytirétti í hlutafé. Áður hafði verið tilkynnt að sjóðurinn hyggðist að uppfylltum skilyrðum leggja flugfélaginu til allt að 75 milljónir dollara.
Nýjustu vendingar í samningum WOW air og Indigo Partners hafa reynst kostnaðarsamar fyrir stofnanda og forstjóra WOW air, Skúla Mogensen. Hann er í hópu skuldabréfaeigenda félagsins en hann keypti í útboðinu fyrir 5,5 milljónir evra, það jafngildir 11% af því sem selt var í útboðinu. Samkvæmt hinum nýju tillögum þarf hann hins vegar ekki aðeins að gefa eftir af skuldabréfaeign sinni heldur neyðist fjárfestingarfélag hans, Títan, til þess að gefa að fullu eftir víkjandi lán að fjárhæð 6 milljónir dollara, jafnvirði ríflega 720 milljóna króna. Drög að nýju samkomulagi gera því ráð fyrir að allur væntur ábati hans af félaginu byggi á hagfelldri rekstrarniðurstöðu þess á komandi árum.