Jón Karl Ólason, fyrrverandi forstjóri Flugfélags Íslands, hefur enga trú á því að Icelandair hyggist kaupa WOW air. Þetta kom fram í þættinum Silfrinu á Rúv. Jón Karl sagðist telja að stjórnvöld vissu meira um málið en látið væri uppi.
Þetta kemur fram á vef RÚV.
Icelandair greindi frá því á fimmtudaginn, að í kjölfar tilkynningar frá WOW air um slit viðræðna við Indigo Partners hefði stjórn Icelandair Group samþykkt að hefja viðræður við WOW air um aðkomu að rekstri félagsins.
Viðræður um mögulega aðkomu Icelandair að rekstri WOW hófust formlega á föstudag. Félögin höfðu gefið sér fram yfir helgina til að ljúka viðræðunum, en á mánudaginn þarf WOW air að standa skil á 150 milljóna króna vaxtagreiðslu vegna skuldabréfa sem félagið gaf út í september síðastliðnum.
Jón Karl sagði í Silfrinu, að það myndi ekki henta Icelandair að komast yfir Airbus-vélarnar sem WOW hefur á leigu og vera með þrjár tegundir af vélum í sínum flota.