Félagsmálaráðuneytið ákvað í morgun að veita Vinnumálastofnun 80 milljóna króna tímabundið framlag vegna falls WOW air. Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, segist mjög ánægð og þakklát með framlagið.
65 milljónum verður varið til að styrkja stofnunina í Reykjavík og 15 milljónum til að styrkja stofnunina á Suðurnesjum.
Unnur segir að Vinnumálstofnun hafi sent ríkisstjórninni minnisblað í gær þar sem farið var fram á aukið framlag vegna gjaldþrots WOW air.
„Það er svo mikið álag á stofnunina. Þarna eru 1.100 manns sem þarf að reikna út bótarétt á, koma inn í kerfið og aðstoða. Þetta reynir á alla innviði stofnunarinnar,“ segir Unnur. Aldrei hafi jafn margir orðið atvinnulausir á jafn skömmum tíma
„Þetta er svakaleg aukning á einu bretti og við höfum aldrei staðið frammi fyrir slíku áður.“