Stella Artois-bjór hefur rokið út úr Vinbúðunum síðustu vikur eftir að verðið á 330 ml flösku af bjórnum lækkaði skyndilega um tæplega 40% 1. mars sl., eins og kom fram í frétt í Morgunblaðinu í mars. Þannig kostar flaskan af bjórnum 219 krónur, en kostaði 359 krónur áður. Þá kostar 440 ml dós nú aðeins 299 krónur en kostaði áður 399 kr.
95,3 þúsund lítrar seldust af Stella Artois-bjór í mars sl. en það er 202 prósent aukning miðað við sama tíma á síðasta ári þegar 31,5 þúsund lítrar seldust. Þegar blaðamaður kom við í Vínbúðinni Álfrúnu við Helluhraun í Hafnarfirði undir lok dags á mánudaginn síðasta, var bjórinn uppseldur, og ekki væntanlegur aftur fyrr en síðar í vikunni.
Til samanburðar kostar 330 ml flaska af Egils Gulli 329 kr. og jafn stór flaska af Víking 375 kr.
Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR, segir í samtali við ViðskiptaMoggann að ástæða verðlækkunarinnar sé sú að verðboð hafi átt sér stað, en þá bjóða fleiri en einn heildsali í víntegund sem viðkomandi vill koma að í hillum Vínbúðanna. Síðustu ár hefur heildsalan Vínnes selt Stella Artois-bjór í Vínbúðunum, en heimildir ViðskiptaMoggans herma að nýi aðilinn sem bauð í Stella Artois hafi verið Costco, sem selur bjórinn í heildsölu sinni í Kauptúni í Garðabæ.
Sigrún Ósk segir að í vöruvalsreglum séu skýrir ferlar um það hvernig unnið sé með verðboð. Hver sá sem hefur leyfi til að flytja inn áfengi getur boðið í vörur sem seldar eru í Vínbúðunum. „Ég get staðfest að þarna kom boð frá nýjum aðila í Stellu Artois,“ segir Sigrún Ósk. Hún segir að í tilfellum sem þessum fari svokallaður verðboðsferill í gang, og þá sé þeim sem er nú þegar með samninginn um sölu viðkomandi áfengistegundar gefinn kostur á að bjóða nýtt verð. Hann fái hinsvegar ekki upplýsingar um það verð sem nýi aðilinn bauð. „Þeir fá bara upplýsingar um að það hafi borist verðtilboð sem er þá betra en það verð sem er fyrirliggjandi,“ útskýrir Sigrún Ósk. Hún bætir við að verðboðið hafi bara átt við um Stella Artois í 330 ml flöskum. Aðrar verðlækkanir á Stella Artois-bjór, eins og til dæmis í 440 ml dósum, séu alfarið ákvörðun birgjans.
Sigrún Ósk segir til útskýringar að þeim sem fái nýjan samning sé síðan óheimilt að breyta verðinu í þrjá mánuði. Þar sem verðbreytingin átti sér stað 1. mars mun verð Stella Artois í 330 ml flöskum ekki hækka fyrr en 1. júní í fyrsta lagi samkvæmt þessum reglum. Eftir þann tíma eru verðbreytingar alfarið ákvörðun birgjans. Spurð að því hvort að nýi aðilinn, sem bauð í vöruna, fái þá tækifæri til að bjóða að nýju 1. júní, segir Sigrún Ósk að reglurnar kveði á um að ekki megi bjóða aftur í vöru sem fór í verðboð fyrr en að 12 mánuðum liðnum. Þar með fær Costco aftur tækifæri til að koma inn á markaðinn með Stella Artois 1. mars 2020, samkvæmt þessum reglum. Aðspurð segir Sigrún Ósk að svona verðboð séu óalgeng. Þá sé almenna reglan sú að birgjar megi breyta verði á vörum sínum einu sinni í mánuði.