Þórólfur Gíslason kaupfélagsstjóri Kaupfélags Skagfirðinga gagnrýnir Ríkisútvarpið í samtali við ViðskiptaMoggann og segir að þörfin fyrir RÚV sé ekki eins brýn og áður. „Ríkið er fyrirferðarmikið á þessum markaði sem er ekki hollt til lengdar, og í raun mjög umhugsunarvert, enda þörfin ekki eins brýn og áður var. Ríkið rak einu sinni dreifikerfi á kartöflum, en er hætt því sem dæmi. Þessi mikli rekstur ríkisins á fjölmiðlum býður upp á ákveðna hættu. Að fjölmiðillinn verði ríki í ríkiskerfinu og leiði skoðanamyndun. Við þekkjum það í löndum þar sem ekki er virkt lýðræði, að þar eru ríkisfjölmiðlar mjög fyrirferðarmiklir.“
Þórólfur bætir við að sér finnist að það eigi að vera val skattgreiðenda hvort þeir vilji halda þessu úti eða ekki. „Þetta er ekki þjóðarnauðsyn eins og heilbrigðiskerfið. Þetta er ekki lengur einn af grunnþáttunum. Ég held að menn eigi markvisst að draga úr hinum miklu umsvifum Ríkisútvarpsins. Ekki síst til þess að tryggja lýðræðisstöðuna í landinu.“
Þess ber að gera að KS á ríflega fimmtungshlut í útgáfufélagi Morgunblaðsins.