Nýir félagar í stórfyrirtækinu Kaupfélagi Skagfirðinga, sem er samvinnufélag, geta hundraðfaldað fé sitt á aðeins nokkrum mánuðum, gangi þeir í félagið. „Þetta er meðlimafélag með um 1.500 félagsmenn. Félagar leggja félaginu ekki til áhættufé. Þeir greiða 100 krónur fyrir að ganga í félagið. Allt áhættufé er tekið úr rekstrinum eða að láni eftir því sem hentar. Til að gerast félagi með atkvæðarétt þarf að vera með lögheimili í Skagafirðinum. Hér eru svo 12 félagsdeildir, sem eru í raun gömlu hrepparnir, og þeir kjósa sína fulltrúa á aðalfund KS, en kosið er frá ári til árs. Allir geta flutt í Skagafjörðinn og gerst félagar. Það eru miklar líkur á því að ef þú hefðir gengið í félagið fyrir 100 krónur í desember í fyrra, fengirðu 10 þúsund krónur í arð í stofnsjóð á aðalfundi. Tíuþúsundkallarnir safnast svo upp eftir því sem árin líða, 10 þúsund á ári, og ef þú hættir í félaginu færðu stofnsjóðinn greiddan út,“ segir Þórólfur Gíslason Kaupfélagsstjóri í samtali við ViðskiptaMoggann.
Þórólfur segir að formið hafi vakið athygli út fyrir landsteinana. „Hingað í Skagafjörðinn kom rússneskur sendiherra um árið og dvaldi í nokkra daga og kynnti sér m.a. kaupfélagið. Sveitarfélagið hélt honum svo veislu í restina, og hann var náttúrulega mjög hrifinn af Skagafirðinum og sérlega hrifinn af Kaupfélaginu, og sagði þarna í veislunni: „Það var einmitt svona sem þeir ætluðu að hafa þetta í Sovét,“ segir Þórólfur kíminn.
Viðtal við Þórólf birtist í heild sinni í ViðskiptaMogganum, sem fylgdi Morgunblaðinu á miðvikudag.