Búist er við því að kröfulýsingar í þrotabú WOW air muni nema nokkrum þúsundum, meðal annars frá fjölda viðskiptavina sem áttu flugmiða eða kröfu á félagið í formi bóta eða annars slíks. Sveinn Andri Sveinsson, annar skiptastjóra búsins, segir í samtali við mbl.is að engrar þóknunar verði krafist fyrir móttöku kröfulýsinga, en við vinnu í öðru stóru þrotabúi, heildsölunni EK1923, rukkaði hann 15 mínútna tímagjald fyrir hverja kröfu. Í tilfelli WOW air gæti því verið um að ræða upphæð upp á tugi milljóna ef slíkt gjald væri rukkað.
Við skipti á EK1923 kom til ágreinings milli hluta kröfuhafa og Sveins Andra og töldu þeir kröfuhafar að of mikill áfallinn kostnaður kæmi til vegna málshöfðana við uppgjörið. Kom þar meðal annars í ljós að kostnaður búsins frá 2016 fram í apríl 2018 væri tæplega 100 milljónir, en tímagjald Sveins Andra var 49.600 krónur með virðisaukaskatti.
Í tímaskýrslu vegna skiptanna kom meðal annars fram að teknar væru 0,25 klst (15 mínútur) fyrir móttöku hverrar kröfulýsingar, en miðað við fyrrnefnt tímagjald er það 12.400 krónur á hverja móttöku.
Í ljósi þess að þrotabú WOW air er með stærstu þrotabúum hér á landi í langan tíma og orða Sveins um að kröfuhafar skipti þúsundum er því ekki úr vegi að athuga hver kostnaðurinn við uppgjör þeirra krafna er, en væri sami háttur hafður á með uppgjör WOW air og EK1923 myndi móttaka þrjú þúsund krafna meðal annars jafngilda rúmlega 37 milljónum.
Sveinn Andri segir hins vegar við mbl.is að bú WOW air sé óvenjulegt út frá stærð þess. Þannig hafi hann og Þorsteinn Einarsson, hinn skiptastjóri búsins, ákveðið að hafa tímagjald sitt nokkru lægra en gjaldskrá þeirra segi til um. Þá staðfestir hann að ekki verði rukkað fyrir móttöku kröfulýsinga hjá WOW air og segir að þar sé um mun stærra verkefni að ræða en hjá EK1923 og því annars eðlis. Segir hann að þessa dagana komi að jafnaði inn yfir hundrað kröfur í félagið á dag.