Hendrik Egholm, forstjóri Skeljungs, afhenti í gær stjórn félagsins uppsagnarbréf sitt sem forstjóri félagsins. Hendrik hefur verið forstjóri bæði Skeljungs og dótturfélagsins Magn í Færeyjum undanfarin tvö ár. Meðan leitað verður að nýjum forstjóra mun hann áfram gegna stöðu forstjóra Skeljungs, en í framhaldinu verður hann aftur forstjóri Magn.
Hendrik hefur starfað fyrir félagið í 12 ár, þar af fyrst sem forstjóri Magn í 10 ár og svo fyrir sameiginlegt félag síðustu tvö árin. Í tilkynningu til Kauphallarinnar í gær er haft eftir honum að lokið sé við nokkur stærri verkefnum félagsins sem hann hafi sett af stað þegar hann tók við fyrir tveimur árum. Hann telji því rétt, með hliðsjón af nýrri eigendasamsetningu og stjórn, að stíga til hliðar og halda áfram vinnunni sem forstjóri Magn.
365 miðlar, félag Ingibjargar Pálmadóttur, eiginkonu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, keypti í apríl stóran hlut í Skeljungi og bætti svo við sig síðar í mánuðinum. Í framhaldinu fór félagið fram á nýjan hluthafafund, en ársfundur félagsins var haldinn í mars og var þá ný stjórn kosin. Í lok maí var ný stjórn kosin, en hana skipa Ata Maria Bærentsen, Birna Ósk Einarsdóttir, Jens Meinhard Rasmussen, Jón Ásgeir Jóhannesson og Þórarinn Arnar Sævarsson. Jens var kjörinn formaður og Jón Ásgeir varaformaður.
365 miðlar eiga 4,32% hlutabréfa í félaginu, auk þess sem gerðir voru framvirkir samningar um kaup á 5,69% í félaginu til viðbótar. Er því samtals um að ræða 10,01% í Skeljungi.