Stefán Einar Stefánsson, fréttastjóri viðskipta á Morgunblaðinu, segir að enn skýrari mynd verði dregin upp af stöðu og falli WOW air á komandi mánuðum í málarekstri bæði innan dómstóla og utan. Segir hann að sú mynd verði í samræmi við það sem hann hafi áður sagt, bæði í fréttum í Morgunblaðinu sem og í bók sinni, WOW: ris og fall flugfélags. Þá verði einnig frekari upplýsingar „sem eiga ekki síður erindi við íslenskt samfélag“ birtar að hans sögn.
Stefán svaraði í morgun ummælum Skúla Mogensen, fyrrverandi forstjóra og eiganda WOW air, en Skúli hafði í gær gagnrýnt framsetningu Stefáns í bókinni og fréttaskrifum sínum. Sagði hann Stefán meðal annars fara fram með „dylgjum“ og „ósannindum.“ Setti Skúli fram sex atriði þar sem hann sagði Stefán fara með rangt mál.
Í færslu á Facebook í dag svarar Stefán ásökunum Skúla lið fyrir lið og vísar meðal annars á bug að Airbus hafi ekki beitt þrýstingi til að koma Ben Baldanza í stjórn WOW air. Segir Stefán hafa öruggar heimildir fyrir því og að strax hafi komið fram áhyggjur strax árið 2016 um rekstur félagsins. Stefán segir einnig að ekkert hafi komið fram sem hreki það sem fram kemur í bókinni um að um helmingur þess fjármagns sem hafi safnast í skuldabréfaútboði WOW air hafi falið í sér skuldbreytingu, en ekki verið nýtt fjármagn í reksturinn.