Gunnlaugur Snær Ólafsson
„Samkeppniseftirlitið telur að rannsóknin sé lögum samkvæmt og mun eftirlitið svara málatilbúnaði félagsins við meðferð málsins fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur,“ segir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, í samtali við mbl.is um kröfu Eimskips um að rannsókn stofnunarinnar á félaginu verði úrskurðuð ólögmæt.
Páll Gunnar kveðst ekki hafa meira um málið að segja á þessu stigi og vísar á yfirlýsingu á vef stofnunarinnar.
Baldvin Þorsteinsson, stjórnarformaður Eimskips, sagði í samtali við mbl.is í gær að krafa Eimskips byggir meðal annars á því að félagið telji rannsóknina hafa verið formlega felld niður árið 2015 og að um sé að ræða ólögmæta haldlagningu gagna. Jafnframt að Samkeppniseftirlitið í raun hafa staðið fyrir lögreglurannsókn sem ekki sé í verkahring stofnunarinnar.
Á vef Samkeppniseftirlitsins segir stofnunin að „umrædd rannsókn Samkeppniseftirlitsins hófst með húsleit í september 2013. Var eldri rannsókn á tilteknum afmörkuðum atriðum sameinuð málinu. Hefur rannsókn eftirlitsins staðið sleitulaust síðan og miðar rannsókninni vel, en umfang rannsóknarinnar er verulegt.“