Geti boðið „spennandi norræna upplifun“

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, og Vincent Tan, stjórnarformaður …
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, og Vincent Tan, stjórnarformaður Berjaya Group Berhad.

Vincent Tan, stjórnarformaður Berjaya Group Berhad, segir kaup félagsins á 75% hlut í Icelandair Hotels vera öfluga viðbót við safn þeirra nítján hótela sem samstæðan á og rekur nú þegar í Malasíu, Víetnam, Japan, á Filippseyjum, Sri Lanka, Seychelle-eyjum og í Bretlandi.

„Kaupin á íslenska hótelfélaginu bæta nýjum vörumerkjum og 1.811 herbergjum í fjölbreytt framboð hótela Berjaya og gera okkur kleift að bjóða núverandi jafnt sem nýjum viðskiptavinum okkar í Asíu nýja og spennandi norræna upplifun,“ er haft eftir Vincent Tan í tilkynningu Icelandair til kauphallarinnar.

„Ég tel að fjárfestingin feli í sér mikið framtíðarvirði fyrir hótelstarfsemi samstæðunnar. Við hlökkum til þess að vinna með nýjum samstarfsaðila okkar að frekari vexti og viðgangi Icelandair Hotels.”

Reynslumikill alþjóðlegur fjárfestir

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, segir fjölgun ferðamanna á Íslandi undanfarin ár hafa leitt til mikillar grósku í ferðaþjónustu.

„Icelandair Group hefur leikið lykilhlutverk í þeirri þróun, meðal annars með því að vera leiðandi afl í uppbyggingu gæðahótela sem bjóða framúrskarandi þjónustu og sanna íslenska upplifun. Nú þegar Icelandair Group hyggst leggja áherslu á kjarnastarfsemi sína, alþjóðlegan flugrekstur, er það okkur mikil ánægja að fá til liðs við hótelin svo reynslumikinn alþjóðlegan fjárfesti,“ er haft eftir Boga í tilkynningu Icelandair.

„Kaup Berjaya á Icelandair Hotels eru í senn staðfesting á gæðum og virði félagsins og björtum framtíðarhorfum íslenskrar ferðaþjónustu. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka stjórnendum og starfsfólki Icelandair Hotels fyrir þeirra framúrskarandi starf við þróun og uppbyggingu öflugs hótelfélags sem hefur mikla þýðingu og virði fyrir íslenska ferðaþjónustu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK