Vaxtabreytingar tveggja af stærstu lífeyrissjóðum landsins að undanförnu eru ólöglegar. Þetta segir Már Wolfgang Mixa, lektor í fjármálum við Háskólann í Reykjavík, í grein sem birtist á mbl.is í morgun. 108 þúsund krónum minna myndi fjölskylda með 40 milljóna húsnæðislán greiða í vexti á ári ef miðað væri við það sem Már segir rétta vexti.
Már vísar máli sínu til stuðnings í 34. grein laga um fasteignalán til neytenda. „Ef í samningi um fasteignalán er kveðið á um að byggt sé á viðmiðunargengi, vísitölum eða viðmiðunarvöxtum við ákvörðun breytilegra vaxta er lánveitanda aðeins heimilt að notast við viðmiðunargengi, vísitölur eða viðmiðunarvexti sem eru skýrir, aðgengilegir, hlutlægir og unnt að sannreyna, bæði fyrir aðila samnings og Neytendastofu.“
Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) lækkaði á dögunum vexti verðtryggðra húsnæðislána úr 2,26% í 2,20%. Már segir hins vegar að vaxtalækkunin hefði átt að vera skarpari. Á heimasíðu LSR sé þess getið að rauður þráður í vaxtaákvörðunum sjóðsins gegnum tíðina hafi verið vaxtastig á markaði. Vaxtalækkunin nú sé mun minni en sem nemi lækkun markaðsvaxta.
Hefði sjóðurinn haldið sig við fyrri viðmið væru vextir í dag um 1,7 til 1,93%. Þar muni 0,27% hið minnsta. Tekur hann dæmi um fjölskyldu sem skuldar 40 milljóna lán hjá LSR. Borgi hún 108 þúsund krónum meira í vaxtakostnað en hún gerði ef vextir væru eins og þeir ættu að vera, að mati Más.
Í greininni segist Már ekki hafa kannað vaxtaákvarðanir og -stefnu Lífeyrissjóðs verslunarmanna til hlítar, en útilokar ekki að sama gildi um þann sjóð. Sá sjóður lækkaði þó óverðtryggða vexti um tæpt prósentustig í fyrradag, úr 6,12% í 5,14%.
Stjórn sjóðsins tilkynnti 24. maí að breytilegir vextir verðtryggðra sjóðfélagalána úr 2,06% upp í 2,26%, en tveimur dögum fyrr hafði Seðlabanki Íslands lækkað stýrivexti um hálft prósentustig. Ákvörðunin var harðlega gagnrýnd og samþykkti stjórn VR um miðjan júní að umboð stjórnarmanna hjá sjóðnum sem sátu fyrir hönd verkalýðsfélagsins yrði afturkallað.