„Við skiljum að einhverjir séu óánægðir“

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, um borð í einni af …
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, um borð í einni af vélum félagsins. Hann segir flugfélagið skilja óánægju farþega sem flogið hafi með leiguvélum, en að félagið hafi líka mætt miklum skilningi frá mörgum farþegum, sem séu ánægðir með að komast á áfangastað. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, segir að flugfélagið skilji og þyki „mjög miður“ að einhverjir farþegar séu óánægðir með að ferðast með leiguvélum félagsins, sem eru ekki eins útbúnar og flugvélar í eigu Icelandair, varðandi afþreyingarbúnað og fleira.

Neytendasamtökin hafa krafist þess að þeim sem „neyðst hafa“ til þess að fljúga með leiguflugvélunum, „án þeirra þæginda sem Icelandair stærir sig af í auglýsingum, fái hlutdeild í væntanlegum bótum frá Boeing vegna óþæginda sem þeir hafi orðið fyrir,“ eins og það var orðað í tilkynningu Neytendasamtakanna í gær.

„Við stóðum frammi fyrir tveimur kostum þegar háanna- og sumarleyfistíminn gekk í garð og ljóst var að kyrrsetning MAX-vélanna myndi vara lengur en við gerðum upphaflega ráð fyrir,“ segir Bogi í svari við fyrirspurn mbl.is um þetta efni.

Blaðamaður óskaði viðbragða Icelandair við kröfu Neytendasamtakanna, en Bogi tók þó ekki afstöðu til hennar með beinum hætti, í svari sínu.

„Annar möguleikinn var að fella niður flug í stórum stíl sem hefði haft áhrif á ferðir og sumarleyfi tugþúsunda farþega. Hin leiðin, sem við ákváðum að fara, var að leggja út í kostnað við að leigja inn fimm leiguvélar með það að markmiði að koma sem flestum farþegum á leiðarenda. Það er hins vegar alveg rétt að leiguvélarnar eru ekki eins útbúnar og okkar vélar. Við skiljum að einhverjir séu óánægðir og okkur þykir það mjög miður, en við höfum líka mætt miklum skilningi frá mörgum farþegum okkar sem eru mjög ánægðir með að komast á áfangastað,“ skrifar Bogi.

Forstjórinn segir að um sé að ræða „fordæmalausar aðstæður“ og Icelandair hafi metið stöðuna sem svo að skynsamlegra væri að lágmarka áhrif kyrrsetningar MAX-vélanna á farþega með því að leigja inn vélar, í stað þess að fella niður enn fleiri flug.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK