Hlutabréf Tesla hrynja í verði

Hlutabréf í Tesla hafa fallið í verði það sem af …
Hlutabréf í Tesla hafa fallið í verði það sem af er degi. AFP

Gengi hlutabréfa í bílaframleiðandanum Tesla hefur hríðfallið við opnun markaða vestanhafs í morgun. Það sem af er degi hefur gengi bréfa fyrirtækisins lækkað um tæplega 13%, en það stendur nú í 230,5 Bandaríkjadölum. 

Þessi snarpa lækkun kemur í kjölfar uppgjörs fyrirtækisins fyrir annan ársfjórðung. Að því er fram kemur í fréttamiðlum vestanhafs var ekki ráðgert að viðbrögðin yrðu eins kröftug og raun ber vitni. 

Talið er að ástæðu framangreindrar niðursveiflu í verði bréfanna megi helst rekja til þess að sölutölur bifreiðanna Model X og Model S eru á niðurleið í Kaliforníu. Slíkt telst mikið áhyggjuefni enda hefur ríkið verið fyrirtækinu afar gjöfult í gegnum tíðina ásamt því að vera heimaríki þess. Þá tilkynnti Elon Musk, forstjóri Tesla, jafnframt að framkvæmdastjóri tæknisviðs hjá Tesla, JB Straubel, léti af störfum eftir 15 ár og gerðist þess í stað ráðgjafi hjá fyrirtækinu. 

Við kynningu á uppgjörinu kom fram að fyrirtækið hefði aldrei afhent eins margar bifreiðar í nokkrum ársfjórðungi frá stofnun. Það kom þó ekki í veg fyrir tap upp á 408 milljónir Bandaríkjadala á ársfjórðungnum, sem þrátt fyrir það er minna tap en áður hafði verið gert ráð fyrir.

Alls námu tekjur Tesla á ársfjórðungnum 6,3 milljörðum Bandaríkjadala, en auk þess átti fyrirtækið ríflega 5 milljarða Bandaríkjadala í lausafé að ársfjórðungnum loknum. Það er hæsta lausafjárupphæð sem Tesla hefur nokkurn tímann haft aðgang að. Í tilkynnningu frá Tesla kom fram að fyrirtækið væri nú komið á það stig að vera „sjálfbært“.

Svo virðist sem fjárfestar hafi tekið fréttunum á þá leið að framtíðarhorfur fyrirtækisins séu ekki eins bjartar og áður var talið. Frá áramótum hefur gengi hlutabréfa fyrirtækisins nú lækkað um 30,5% og stendur eins og áður segir í 230,5 Bandaríkjadölum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK