Tekjur Isavia af flugtengdum rekstri á Keflavíkurflugvelli eru að meðaltali 9,84 evrur, jafnvirði 1.340 króna, á hvern farþega sem fer um Keflavíkurflugvöll. Tekjur flugvallarins af rekstri sem er ekki tengdur flugi eru hins vegar 7,35 evrur á farþega eða um eitt þúsund krónur og eru þessar tekjur 42,8% af heildarveltu flugvallarins.
Þetta kom fram í skýrslu sem unnin var fyrir Isavia á þessu ári og vísað er til í drögum að grænbók um stefnu stjórnvalda í málefnum flugrekstrar og flugtengdrar starfsemi, en þau hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda.
Tekjur af flugtengdum rekstri eru yfir miðgildi samanburðarflugvalla, sem er 9,74 evrur á farþega. Þá sé Dublin flugvöllur að hafa 9,74 verur í tekjur á hvern farþega og munar því aðeins 0,1 evrum eða rúmum 13 krónum á tekjum þess flugvallar og Keflavíkurflugvallar.
Bent er á í drögunum að um er að ræða tekjur flugvallar sem deilt er á hvern farþega. Sé hins vegar litið til staks flug breytist myndin nokkuð. Við eitt flug eru greiddar 2.348,6 evrur í Dublin, en Keflavíkurflugvöllur krefst greiðslu 3.315,8 evra fyrir flugið eða 41% meira.
Þá segir í drögunum að tekjur á farþega af rekstri sem ekki tengist flugrekstri sé undir meðallagi og skýrist sérstaklega vegna mikils fjölda tengifarþega. Lagt er til að unnið verði að því að auka slíkum tekjum af farþegum en að það myndi kalla á aukna fjárfestingu.