Bankaráðið mun funda um viðskipti Sigríðar

Sigríður Benediktsdóttir, fyrrum framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs Seðlabankans.
Sigríður Benediktsdóttir, fyrrum framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs Seðlabankans. Ómar Óskarsson

Bankaráð Seðlabanka Íslands mun fjalla um viðskipti Sigríðar Benediktsdóttur, þáverandi framkvæmdastjóra fjármálastöðugleikasviðs bankans. Í febrúar 2012 flutti hún 50 þúsund evrur til landsins á grundvelli hinnar svokölluðu fjárfestingarleiðar. Hún fól í sér tækifæri fyrir eigendur erlends gjaldeyris til að flytja hann til landsins, meðan gjaldeyrishöft voru við lýði, og skipta honum í krónur á verulegum afslætti.

Gylfi Magnússon, formaður bankaráðsins segir þó ólíklegt að ráðið muni taka málið fyrir á næsta fundi sínum, 21. ágúst en það verður fyrsti fundurinn með nýjum seðlabankastjóra, Ásgeiri Jónssyni.

Gylfi Magnússon, formaður bankaráðs Seðlabankans segir að ráðið muni taka …
Gylfi Magnússon, formaður bankaráðs Seðlabankans segir að ráðið muni taka málið fyrir þótt ekki verði það á næsta fundi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Í umfjöllun Morgunblaðsins í morgun kemur fram að Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, hafi veitt Sigríði heimild til þátttöku í fjárfestingarleiðinni þrátt fyrir að hafa tveimur dögum fyrr ákveðið að enginn framkvæmdastjóri við bankann mætti taka þátt í henni. Taldi hann að þar sem Sigríður gegndi hlutastarfi við bankann á þessum tíma frá útlöndum, þar sem hún bjó á þessum tíma, og þar sem hún hafi ekki búið yfir sérgreindum upplýsingum um fjárfestingarleiðina, framkvæmd hennar eða mótun, þá ættu hinar nýsettu reglur ekki við hana fyrr en hún kæmi að fullu til starfa við bankann.

Hagnaðist um tæpar tvær milljónir

Útboðið fór fram 15. febrúar 2012, einum og hálfum mánuði eftir að hún var ráðin framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs. Hún kom hins vegar að fullu til starfa þann 23. apríl sama ár. Miðað við opinberar upplýsingar um útboðið nam gengishagnaður Sigríðar af viðskiptunum tæpum tveimur milljónum króna.

Seðlabankinn.
Seðlabankinn. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Yfirlýsing frá Seðlabankanum

Í yfirlýsingu frá bankanum um málið, sem barst Morgunblaðinu á miðvikudag í tengslum við umfjöllun blaðsins um þetta mál, segir:

„Í Viðskiptamogganum í dag, 31. júlí 2019, er birt frétt um þátttöku Sigríðar Benediktsdóttur í svokallaðri fjárfestingarleið Seðlabankans hinn 15. febrúar 2012. Í fréttina vantar mikilvægar upplýsingar og því gæti lesandinn dregið þá ályktun af lestri hennar að annað hvort hafi Sigríður Benediktsdóttir brotið reglur sem tóku gildi hinn 8. febrúar 2012 um þátttöku starfsmanna bankans í viðskiptum vegna gjaldeyrisútboða og fjárfestingarleiðar eða að bankinn hafi brotið reglurnar með því að heimila Sigríði slíka þátttöku. Hvorugt er rétt eins og útskýrt er hér á eftir. Tekið skal fram að þagnarskylduákvæði sem á Seðlabankanum hvíla koma í veg fyrir að bankanum sé heimilt að skýra frá nöfnum einstakra aðila sem tóku þátt í fjárfestingarleið. Nú hefur Sigríður sjálf greint frá þátttöku sinni og hefur heimilað bankanum að birta það sem hér fer á eftir og felur í sér upplýsingar um persónuleg fjárhagsmálefni hennar sem að öðru jöfnu hafa ekkert erindi á opinberan vettvang.

Málavextir eru þeir að Sigríður var ráðin framkvæmdastjóri fjármálastöðugleika hinn 1. janúar 2012. Hún bjó á þessum tíma erlendis og var í hlutastarfi í bankanum til 23. apríl 2012 við að undirbúa starf fjármálastöðugleika eftir að hún kæmi til starfa í bankanum. Hinn 23. janúar 2012 lagði hún og eiginmaður hennar fram umsókn um þátttöku í fyrsta útboði fjárfestingarleiðar. Hinn 7. febrúar 2012 voru gerðar breytingar á þágildandi reglum Seðlabanka Íslands um meðferð trúnaðarupplýsinga og verðbréfa- og gjaldeyrisviðskipti starfsmanna nr. 831/2002, sem takmörkuðu þátttöku tiltekinna starfsmanna í fjárfestingarleið bankans. Þeir starfsmenn sem nefndir voru í breytingareglunum voru þeir sem vegna stöðu sinnar gátu haft upplýsingar um eða gátu hafa tekið þátt í mótun áætlunar um losun fjármagnshafta eða regluverks fjárfestingarleiðar Seðlabankans.

Yfirstjórn bankans var ekki kunnugt um að Sigríður og eiginmaður hennar höfðu lagt inn umsókn um þátttöku í fjárfestingarleið enda engin slík upplýsingaskylda á Sigríði. Um leið og reglur bankans voru kynntar 7. febrúar  varð hins vegar ljóst að skera yrði úr því álitamáli hvort þær næðu til Sigríðar varðandi fyrsta útboðið sem fór síðan fram 15. febrúar, þ.e. hvort hún væri í hópi þeirra starfsmanna bankans sem höfðu eða gátu haft upplýsingar um áætlun um losun fjármagnshafta eða upplýsingar um útfærslu og framkvæmd gjaldeyrisútboða og fjárfestingarleiðar bankans sem ekki voru öllum aðgengilegar. Var við það mat jafnframt haft að leiðarljósi að meðalhófs væri gætt og að reglurnar væru ekki íþyngjandi umfram tilefni. Í reglunum var ákvæði um að seðlabankastjóri skyldi skera úr um ef vafi risi um hvaða starfsmenn féllu undir reglurnar. Því ákvæði var fylgt með sérstakri bankastjórasamþykkt daginn eftir gildistöku reglnanna og er óskað eftir því að sú samþykkt verði birt í heild sinni í Morgunblaðinu með þessari athugasemd, enda koma rökin fyrir ákvörðuninni þar skýrt fram. Niðurstaðan var sú að umræddar reglur næðu ekki til Sigríðar fyrr en eftir 23. apríl 2012, þegar hún kom til starfa í bankanum, enda áttu sjónarmið um innherjaupplýsingar, sem voru tilefni að setningu reglnanna, ekki við um Sigríði fyrr en eftir þann tíma. Sigríður og eiginmaður hennar tóku því þátt í útboðinu 15. febrúar 2012 með samþykki Seðlabankans og í samræmi við tilgang reglna nr. 831/2002.“

Hér má nálgast ákvörðun seðlabankastjóra um að heimila Sigríði þátttöku í útboðinu:

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK