Samtök iðnaðarins (SI) telja að lækkun verðbólgu og verðbólguvæntinga að verðbólgumarkmiði undanfarið gefið peningastefnunefnd Seðlabankans „góða kjölfestu og svigrúm til þess að lækka stýrivexti“ á fundi nefndarinnar í næstu viku. Ákvörðun peningastefnunefndar verður tilkynnt miðvikudaginn 6. nóvember.
Telja SI að peningastefnunefnd geti hjálpað fyrirtækjum og heimilum að takast á við versnandi efnahagsástand með vaxtaákvörðun sinni og þar með mildað niðursveifluna í efnahagslífinu. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Samtaka iðnaðarins.
„Raunvextir, mældir sem munur á núverandi verðbólgu og stýrivöxtum bankans, hafa hækkað frá síðustu vaxtaákvörðun. Sama má segja um raunstýrivexti bankans mælda út frá verðbólguvæntingum og stýrivöxtum,“ segir þar einnig.
„Aðhald peningastjórnunarinnar hefur því aukist á sama tíma og útlitið í efnahagsmálunum hefur dökknað. Samtök iðnaðarins telja að við þessu þurfi peningastefnunefnd Seðlabankans að bregðast.“
„Vaxtalækkanir Seðlabankans undanfarna mánuði hafa verið mikilvægar í því að styðja við íslenskt efnahagslíf á tíma versnandi efnahagsástands. Rekstarumhverfi íslenskra fyrirtækja hefur verið krefjandi sem kallað hefur á umtalsverðar hagræðingaraðgerðir. Með réttum aðgerðum í hagstjórn má breyta efnahagshorfum umtalsvert til batnaðar,“ segir þar jafnframt.
Þá er því haldið fram að samdráttur mælist á mörgum sviðum efnahagslífsins, atvinnuleysi hafi aukist og launþegum fækkað í öllum helstu greinum hins almenna vinnumarkaðar. Það hafi dregið úr væntingum um vöxt gjaldeyristekna og hagvöxt.