4 daga vinnuvika Microsoft jók framleiðni

Hópur dansara myndar hér Microsoft lógóið. Mynd úr safni.
Hópur dansara myndar hér Microsoft lógóið. Mynd úr safni. AFP

Tilraun sem Microsoft í Japan gerði með styttingu vinnuvikunnar leiddi til 40% söluaukningar. Tilraunin fól í sér að skrifstofur fyrirtækisins voru lokaðar alla föstudaga í ágúst og án þess að laun starfsmanna væru lækkuð.

BBC segir tilraunina einnig hafa falið í sér að hámarkslengd var sett á fundarhöld, þannig að hver fundur mátti ekki standa lengur en í hálftíma og auk þess var starfsfólk hvatt til að leysa úr málum í gegnum netspjall í stað þess að hittast.

Vinnudagurinn er óvíða í heiminum lengri en í Japan.

Rannsókn sem gerð var árið 2017 benti til þess að tæpur fjórðungur japanskra fyrirtækja léti starfsfólk vinna meira en 80 yfirvinnustundir í hverjum mánuði, oft án nokkurrar yfirvinnugreiðslu.

Að sögn BBC naut tilraunin sem Microsoft gerði nú í sumar vinsælda hjá 92% þeirra starfsmanna sem tóku þátt, en auk færri vinnustunda dró fyrirtækið með þessu úr rafmagnsnotkun um 23% og pappírsnotkun um 59% borið saman við ágúst árið á undan.

Hefur fyrirtækið greint frá því að það ætli að innleiða aðra sambærilega áskorun nú í vetur, en að þá muni starfsfólki ekki standa til boða sama „sérkjaraleyfi“ og í sumar þegar launin héldust óskert. Starfsfólk verður engu að síður hvatt til að taka sér frítíma og eyða honum „gáfulega“.

BBC segir Jack Ma, einn stofnenda Alibaba netverslunarinnar, aftur á móti hvetja til 12 stunda vinnudags. Þannig lýsti hann í apríl á þessu ári „996“ munstrinu, sem felur í sér að verkafólk vinnur frá kl. 9-21 sex daga vikunnar sem „blessun“.

Í skýrslu sem unnin var fyrir breska Verkamannaflokkinn kemur fram að fjögurra daga vinnuvika sé „óraunhæft“ takmark fyrir flesta.

„Jafnvel þó að einhverjir neyðist til að vinna skemmri vinnudag en þeir vilja, þá þurfa flestir að vinna lengri vinnudag en þeir vilja,“ segir í skýrslunni sem birt var í september.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK