Björgólfur Jóhannsson hefur tilkynnt félaginu Festi um afsögn sína úr stjórn Festar vegna tímabundinnar ráðningar sinnar sem forstjóri Samherja. Festi er móðurfélag N1, Krónunnar, Elko og fleiri félaga og er skráð í Kauphöllina.
Fyrr í dag var greint frá því að Þorsteinn Már Baldvinsson hefði komist að samkomulagi við stjórn Samherja um að stíga tímabundið til hliðar sem forstjóri félagsins þar til helstu niðurstöður yfirstandandi innri rannsóknar á ætluðum brotum dótturfélags í Namibíu liggja fyrir.
Björgólfur hætti sem forstjóri Icelandair í fyrra eftir áratug í því starfi. Hann hefur áður starfað í sjávarútvegi og fyrir Samherja. Árið 1993 var hann ráðinn sem fjármálastjóri Útgerðafélags Akureyrar. Árið 1996 var hann svo ráðinn framkvæmdastjóri þróunar- og nýsköpunar hjá Samherja og árið 1999 var hann orðinn forstjóri Síldarvinnslunnar, sem var að hluta í eigu Samherja. Árið 2006 fór Björgólfur yfir til Icelandic Seafood og árið 2008 var hann svo ráðinn forstjóri Icelandair. Hann hefur einnig gegnt embætti formanns Samtaka atvinnulífsins.