Frestur til þess að tilnefna konur til verðlauna á viðurkenningarhátíð Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA) rennur út á morgun, þriðjudag. Viðurkenningarhátíð FKA er haldin árlega þar sem konur úr atvinnulífinu eru heiðraðar. Hátíðin sjálf fer fram 23. janúar á nýju ári en verðlaunin voru fyrst veitt árið 1999. Forsvarskonur FKA kalla eftir tilnefningum frá atvinnulífinu.
FKA-viðurkenningin er veitt í þremur flokkum. Um er að ræða FKA-viðurkenninguna sem veitt er fyrir vel unnin störf í þágu atvinnureksturs kvenna eða þeim sem hafa verið konum í atvinnulífinu sérstök hvatning eða fyrirmynd, FKA-þakkarviðurkenninguna sem veitt er konu fyrir eftirtektarvert ævistarf sem stjórnanda í atvinnulífinu og FKA-hvatningarviðurkenninguna sem veitt er konu fyrir að sýna athyglisvert frumkvæði.
„Að vanda verða veittar viðurkenningar á hátíðinni til þriggja kvenna sem hafa verið konum í atvinnulífinu hvatning og fyrirmynd,“ segir Andrea Róbertsdóttir framkvæmdastjóri og bendir á að hægt sé að fara inn á heimasíðu FKA og tilnefna konur þar.
„Þú getur tilnefnt konur í öllum flokkum eða bara eina en mikilvægt er að lesa kríteríu fyrir hverja viðurkenningu og tilnefna í réttum flokki,“ segir Andrea.
Viðburðurinn er að sögn Andreu jafnan vel sóttur en í fyrra hlutu Sigríður Snævarr sendiherra, Margrét Kristmannsdóttir, framkvæmdastjóri PFAFF, og Helga Valfells, framkvæmdastjóri Crowberry Capital, viðurkenningar.
„Öll kyn úr framlínu íslensks viðskipta- og atvinnulífs fylltu Gamla bíó fyrr á árinu þegar FKA heiðraði Sigríði Snævarr sendiherra sem fékk FKA-þakkarviðurkenninguna árið 2019. Margrét Kristmannsdóttir, framkvæmdastjóri Pfaff, hlaut FKA-viðurkenninguna og Helga Valfells, framkvæmdastjóri Crowberry Capital, hlaut FKA-hvatningarviðurkenninguna árið 2019,“ segir Andrea.
Dómnefnd skipuð sjö aðilum úr viðskiptalífinu fer yfir allar tilnefningar. Að sögn Andrea var leitast til við að einstaklingar hefðu sem breiðastan bakgrunn í aldri, reynslu og búsetu við skipun dómnefndar. Er það í samræmi við stefnu FKA fyrir stjórnarmenn og stjórnendur framtíðarinnar.
Formaður dómnefndar 2020 er Þórdís Lóa Þórhallsdóttir sem var formaður FKA árið 2012 til 2016 en hún er í dag formaður borgarráðs og staðgengill borgarstjóra í Reykjavík. Áslaug Gunnlaugsdóttir er fulltrúi stjórnar FKA vegna viðurkenningarhátíðarinnar.
Dómnefnd 2020 ásamt Þórdísi Lóu:
Páll Matthíasson — Forstjóri Landspítalans
Margét Tryggvadóttir — forstjóri NOVA
Kristinn Óli Haraldsson (Króli) — tónlistarmaður, leikari, áhrifavaldur og ræðukeppandi
Katrín Olga Jóhannesdóttir — formaður Viðskiptaráðs Íslands
Hilmar Veigar Pétursson — framkvæmdastjóri tölvuleikjafyrirtækisins CCP
Guðbjörg Matthíasdóttir — útgerðar- og athafnakona í Vestmannaeyjum