Rauður dagur hjá Icelandair

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hlutabréf í Icelandair féllu um 6,4% í kauphöllinni í dag. Lækkunin hefur verið rakin til fréttaflutnings af mögulegri seinkun á endurkomu Boeing 737 MAX-vélanna, sem hafa verið kyrrsettar frá í mars. 

Bandaríska blaðið Seattle Times greindi frá því í dag að Steve Dickson, fram­kvæmda­stjóri banda­rísku flug­mála­stofn­un­ar­inn­ar, hefði kallað eft­ir því í sam­tali við Denn­is Mui­len­berg, fram­kvæmda­stjóra flug­véla­fram­leiðand­ans Boeing, að fé­lagið hætti við að gefa út yf­ir­lýs­ingu um „yf­ir­vof­andi“ (e. imm­in­ent) aflétt­ingu kyrr­setn­ing­ar á Boeing 737 Max-vél­um fyr­ir­tæk­is­ins.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir ómögulegt að segja til um hvað skýri lækkun dagsins. Hann segist þó leggja þann skilning í fréttaflutning dagsins að flugmálayfirvöld vilji fyrst og fremst einbeita sér að því að tryggja öryggi vélanna áður en farið sé í yfirlýsingar.

Standa betur að vígi en í sumar 

Áætlanir Icelandair miðast við að MAX-vélarnar verði teknar aftur í gagnið í mars og segir Bogi að enn sé stefnt að því. Hins vegar sé Icelandair mun betur í stakk búið til að takast á við aðstæður nú en síðasta vor, komi til frekari kyrrsetningar.

„Í fyrra þurftum við að taka vélar á leigu með mjög skömmum fyrirvara, í apríl og maí, til að nota yfir hásumarið,“ segir Bogi. Nú sé hins vegar til skoðunar að taka inn vélar með meiri fyrirvara, sem væntanlega skilaði sér í betri kjörum.

Bogi bendir á að við gerð flugáætlunar Icelandair fyrir árið 2020, sem kynnt var nýlega, hafi áhersla verið lögð á tvennt: að bæta afkomu leiðakerfisins og lágmarka áhættu vegna kyrrsetningar 737 MAX-vélanna. Í því skyni hafi breytingar verið gerðar á leiðakerfinu, sem meðal annars fólust í því að flugi til San Francisco og Kansas í Bandaríkjunum var hætt. „Við höfum stillt leiðarkerfið með þeim hætti að áhrifin af kyrrsetningu eru mun minni en áður,“ segir Bogi.

Til viðbótar hafi félagið seinkað því að taka eldri vélar úr flotanum, sem til stóð að vikju fyrir nýjum 737 MAX-vélum. „Staðan fyrir sumarið verður því allt önnur heldur en var síðasta sumar, ef af frekari kyrrsetningu verður, þótt það sé alltaf einhver áhætta.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK