Viðskiptavinir Orkuveitu Reykjavíkur sem í dag fá einn sundurliðaðan reikning frá bæði Orku náttúrunnar og Veitum munu frá og með janúar á næsta ári fá tvo aðskilda reikninga. Hingað til hafa viðskiptavinir greitt 114 krónur fyrir birtingu hverrar kröfu í heimabanka sínum, en þeir viðskiptavinir sem eru í viðskiptum við bæði fyrirtækin munu eftir breytinguna fá tvær kröfur sendar.
Verður birtingargjald hverrar kröfu í heimabanka þó lækkað niður í 80 krónur á kröfu og verður þannig 160 krónur í stað 114 króna áður hjá þeim sem eru í viðskipti við bæði fyrirtækin.
Samkvæmt upplýsingum frá Orkuveitunni fæst lækkun upphæðar á hverja kröfu með því að reikningurinn sjálfur verður ekki lengur birtur í heimabanka viðskiptavina undir rafrænum skjölum, heldur verður hann aðeins aðgengilegur undir „mínar síður“ á vefjum fyrirtækjanna. Kröfurnar sjálfar munu þá áfram birtast í netbönkum. Þá bendir Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi OR segir í samtali við mbl.is að til viðbótar þá sé undir „mínum síðum“ hægt að sjá ýmsar upplýsingar sem ekki hafi verið aðgengilegar í rafrænum skjölum, svo sem samanburður á kostnaði sambærilegra heimila með það að leiðarljósi að fólk nái niður kostnaði hjá sér.
Þá bendir Orkuveitan á að viðskiptavinir Orku náttúrunnar geti losnað alfarið við birtingargjald með því að setja rafmagnsreikninginn í fasta boðgreiðslu á greiðslukort. Með því myndi því heildar birtingargjald lækka úr 114 krónum í 80 krónur, eða sem nemur tæplega 30% lækkun.
Fái viðskiptavinir reikninga senda heim á pappírsformi kostar það í dag 239 krónur. Sú fjárhæð mun hækka í 245 krónur um áramótin hjá Veitum og 300 krónur hjá Orku náttúrunnar. Segir OR þá hækkun ráðast af kostnaði í prent- og sendingarkostnaði.
Í tilkynningu Orkuveitunnar til viðskiptavina sinna kemur fram að uppskipting reikninganna sé liður í því að skýra betur fyrir viðskiptavinum hvaðan þjónustan sé keypt og fyrir hvað sé verið að greiða.
Orkuveitan sendir í dag út reikninga til um 80 þúsund heimila og 15 þúsund fyrirtækja samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu.