Framkvæmdastjóri Facebook, Sheryl Sandberg, segir að yfir eitt þúsund ný störf verði til hjá samfélagsmiðlinum í London í ár. Er það gert til þess að bæta öryggi á miðlinum með stuðningi frá gervigreind.
Eftir fjölgunina verða yfir fjögur þúsund starfsmenn Facebook á skrifstofunni í London. Sandberg segir að Bretland sé leiðandi í bæði í frumkvöðlastarfsemi sem og hugviti. „Þess vegna er ég mjög spennt yfir þeim áætlunum okkar að ráða eitt þúsund manns til viðbótar í London í ár,“ segir hún.
Stór hluti starfanna tengist þróun gervigreindar og hvernig er hægt að mæta þeim áskorunum sem fylgja opnu neti. Með þeim verði hægt að finna og fjarlægja skaðlegt efni fyrr en nú er.
Forsætisráðherra Bretlands, Boris Johnson, fagnaði þessu framtaki Facebook og segir að í Bretlandi séu að verða til ný fyrirtæki sem starfa meðal annars við gervigreind sem heilla eldri stór tæknifyrirtæki eins og Facebook.