Horfur eru á að útflutningur muni dragast saman um 1,4% á þessu ári samkvæmt spá Seðlabankans, en gangi það eftir verður þetta í fyrsta skiptið í tæplega 30 ár þar sem samdráttur verður í útflutningi tvö ár í röð. Þetta kom fram í kynningu Þórarins G. Péturssonar, aðalhagfræðings Seðlabankans, á spá bankans á kynningarfundi peningastefnunefndar í dag.
Peningastefnunefnd kynnti í morgun að meginvextir bankans, sem áður voru kallaðir stýrivextir, lækkuðu um 0,25 prósentustig, niður í 2,75%.
Í kynningu sinni fór Þórarinn yfir spá bankans til næstu ára. Sagði hann að nú væru uppi verri horfur en í síðustu spá bankans í nóvember í fyrra. Útlit væri fyrir hægari bata í ferðaþjónustu, langvinnari framleiðsluhnökra í áliðnaði og loðnubrest annað árið í röð.
Sagði hann að á alþjóðavettvangi væri ekki mikil breyting. Horfur á samdrætti þar hafi minnkað í kjölfar samkomulags á milli Bandaríkjanna og Kína, en á móti hafi óvissa vegna kórónuveirusýkingarinnar aukist.
Horfur í útflutningi hafa hins vegar versnað að mati bankans og spáir hann nú að samdráttur verði 1,4% á þessu ári, en áður hafði bankinn spáð að útflutningur ykist um 0,4% á þessu ári. Í fyrra dróst útflutningur saman um 5,8%. Skipti þar mestu samdráttur í ferðaþjónustu eftir fall WOW air. Var það mesti samdráttur í útflutningi síðan 1991 og gangi spáin eftir verður þetta í fyrsta skipti í 30 ár sem útflutningur dregst saman tvö ár í röð síðan árin 1991-1992.
Ástæða samdráttar á þessu ári er að sögn Þórarins þrískipt. „Það leggst allt á sömu sveif. Lakari horfur í ferðaþjónustu, meiri vandamál í áliðnaði varðandi framleiðsluna þar og svo loðnubrestur annað árið í röð,“ sagði hann í kynningunni.
Umskiptin í útflutningi hafa hægt á hagvexti, en samkvæmt tölum Hagstofunnar um hagvöxt á þriðja ársfjórðungi í fyrra mældist 0,1% samdráttur. Bendir Þórarinn á að síðan í byrjun árs 2018 hafi hægt mikið á hagvexti úr um 6% niður í „nánast stöðnun“ þegar komi fram á þetta ár.
Þegar horft er til fyrstu þriggja ársfjórðunga síðasta árs er hagvöxturinn 0,2%, en það er aðeins betra en 0,1% samdráttur sem Seðlabankinn hafði spáð í nóvember. Þórarinn segir þetta meðal annars skýrast af því að einkaneysla hafi vaxið meira en búist hafi verið við. Þá hafi samdráttur í fjárfestingum verið minni en búist var við, sérstaklega vaxtar í íbúðafjárfestingum. Þjóðarútgjöld eru því að dragast minna saman en búist var við. Á móti er útflutningur að minnka meira en fyrri spá bankans hafði gert ráð fyrir. Gerir bankinn nú ráð fyrir því að hagvöxtur á síðasta ári hafi verið 0,6% í stað 0,2% samdráttar.
Horft fram í tímann segir Þórarinn að lakari útflutningshorfur og hækkandi vaxtaálag á fjárfestingu breyti horfum fyrir þetta ár og næsta ár. Gerir bankinn nú ráð fyrir 0,8% hagvexti í ár, samanborið við 1,6% í fyrri spá. Þá er spáð 2,4% hagvexti á næsta ári, en fyrri spá hafði gert ráð fyrir 2,9%.
Þórarinn fór líka inn á stöðuna á vinnumarkaðinum. Samkvæmt staðgreiðslutölum fækkaði störfum um 2% á síðasta ársfjórðungi síðasta árs. Þá hafi atvinnuleysi aukist og sé komið í 3,8% á síðasta ársfjórðungi samkvæmt vinnumarkaðskönnun og hafi aukist um eitt prósentustig frá fyrra ári. Þá sé 4,1% atvinnuleysi samkvæmt atvinnuleysisskrá.
Bendir Þórarinn á að samkvæmt könnun bankans hafi fyrirtækjum sem vilja fækka starfsfólki fjölgað lítillega á ný, en áður taldi bankinn að botninum væri náð. Þá hafi fyrirtækjum sem telja sig starfa við full afköst fækkað aftur. Í þessu ljósi segir Þórarinn að bankinn telji að atvinnuleysi verði að meðaltali yfir 4% í ár og á næsta ári og að það muni taka lengri tíma að ná því niður en áður var talið.