Viðlíka samdráttarskeið ekki síðan 1991-92

Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans.
Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans. mbl.is/Golli

Horfur eru á að útflutningur muni dragast saman um 1,4% á þessu ári samkvæmt spá Seðlabankans, en gangi það eftir verður þetta í fyrsta skiptið í tæplega 30 ár þar sem samdráttur verður í útflutningi tvö ár í röð. Þetta kom fram í kynningu Þórarins G. Péturssonar, aðalhagfræðings Seðlabankans, á spá bankans á kynningarfundi peningastefnunefndar í dag.

Peningastefnunefnd kynnti í morgun að meginvextir bankans, sem áður voru kallaðir stýrivextir, lækkuðu um 0,25 prósentustig, niður í 2,75%.

Hægari bati og langvinnari framleiðsluhnökrar

Í kynningu sinni fór Þórarinn yfir spá bankans til næstu ára. Sagði hann að nú væru uppi verri horfur en í síðustu spá bankans í nóvember í fyrra. Útlit væri fyrir hægari bata í ferðaþjónustu, langvinnari framleiðsluhnökra í áliðnaði og loðnubrest annað árið í röð.

Sagði hann að á alþjóðavettvangi væri ekki mikil breyting. Horfur á samdrætti þar hafi minnkað í kjölfar samkomulags á milli Bandaríkjanna og Kína, en á móti hafi óvissa vegna kórónuveirusýkingarinnar aukist.

„Það leggst allt á sömu sveif“

Horfur í útflutningi hafa hins vegar versnað að mati bankans og spáir hann nú að samdráttur verði 1,4% á þessu ári, en áður hafði bankinn spáð að útflutningur ykist um 0,4% á þessu ári. Í fyrra dróst útflutningur saman um 5,8%. Skipti þar mestu samdráttur í ferðaþjónustu eftir fall WOW air. Var það mesti samdráttur í útflutningi síðan 1991 og gangi spáin eftir verður þetta í fyrsta skipti í 30 ár sem útflutningur dregst saman tvö ár í röð síðan árin 1991-1992.

Ástæða samdráttar á þessu ári er að sögn Þórarins þrískipt. „Það leggst allt á sömu sveif. Lakari horfur í ferðaþjónustu, meiri vandamál í áliðnaði varðandi framleiðsluna þar og svo loðnubrestur annað árið í röð,“ sagði hann í kynningunni.

Betri afkoma í fyrra en spáð hafði verið

Umskiptin í útflutningi hafa hægt á hagvexti, en samkvæmt tölum Hagstofunnar um hagvöxt á þriðja ársfjórðungi í fyrra mældist 0,1% samdráttur. Bendir Þórarinn á að síðan í byrjun árs 2018 hafi hægt mikið á hagvexti úr um 6% niður í „nánast stöðnun“ þegar komi fram á þetta ár.

Þegar horft er til fyrstu þriggja ársfjórðunga síðasta árs er hagvöxturinn 0,2%, en það er aðeins betra en 0,1% samdráttur sem Seðlabankinn hafði spáð í nóvember. Þórarinn segir þetta meðal annars skýrast af því að einkaneysla hafi vaxið meira en búist hafi verið við. Þá hafi samdráttur í fjárfestingum verið minni en búist var við, sérstaklega vaxtar í íbúðafjárfestingum. Þjóðarútgjöld eru því að dragast minna saman en búist var við. Á móti er útflutningur að minnka meira en fyrri spá bankans hafði gert ráð fyrir. Gerir bankinn nú ráð fyrir því að hagvöxtur á síðasta ári hafi verið 0,6% í stað 0,2% samdráttar.

Spá minni hagvexti í ár og á næsta ári

Horft fram í tímann segir Þórarinn að lakari útflutningshorfur og hækkandi vaxtaálag á fjárfestingu breyti horfum fyrir þetta ár og næsta ár. Gerir bankinn nú ráð fyrir 0,8% hagvexti í ár, samanborið við 1,6% í fyrri spá. Þá er spáð 2,4% hagvexti á næsta ári, en fyrri spá hafði gert ráð fyrir 2,9%.

Atvinnuleysi verði áfram yfir 4%

Þórarinn fór líka inn á stöðuna á vinnumarkaðinum. Samkvæmt staðgreiðslutölum fækkaði störfum um 2% á síðasta ársfjórðungi síðasta árs. Þá hafi atvinnuleysi aukist og sé komið í 3,8% á síðasta ársfjórðungi samkvæmt vinnumarkaðskönnun og hafi aukist um eitt prósentustig frá fyrra ári. Þá sé 4,1% atvinnuleysi samkvæmt atvinnuleysisskrá.

Bendir Þórarinn á að samkvæmt könnun bankans hafi fyrirtækjum sem vilja fækka starfsfólki fjölgað lítillega á ný, en áður taldi bankinn að botninum væri náð. Þá hafi fyrirtækjum sem telja sig starfa við full afköst fækkað aftur. Í þessu ljósi segir Þórarinn að bankinn telji að atvinnuleysi verði að meðaltali yfir 4% í ár og á næsta ári og að það muni taka lengri tíma að ná því niður en áður var talið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK