Á næstu vikum mun ríkisstjórnin kynna tillögur að auknum fjárfestingum í tengslum við innviði landsins. Þar verður farið yfir þær fjárfestingar sem talið er nauðsynlegt að ráðast í og einnig hvernig sé best að fjármagna þær. Þetta segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, en í morgun birtist viðtal við Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra í Morgunblaðinu þar sem hún sagðist vilja sjá aðgerðir strax til að sporna við frekari slaka í hagkerfinu og að til þess þyrfti 2% af landsframleiðslu, eða um 50 milljarða.
Katrín segir við mbl.is að hún og ríkisstjórnin hafi alltaf talað fyrir því að það þyrfti að auka fjárfestingu í innviðum til að mæta uppsafnaðri þörf til margra ára. Þannig verði á föstudaginn í næstu viku kynntar tillögur um aukna uppbyggingu í orkuinnviðum í kjölfarið á niðurstöðum átakshóps um úrbætur á innviðum, sem tók til starfa í desember eftir óveðrið sem gekk yfir 10. og 11. desember.
Lilja talaði í viðtalinu um að auka mætti halla ríkissjóðs til að fara í fjárfestingar. Spurð út í mögulegar fjármögnunarleiðir segir Katrín að slíkt verði einnig kynnt á næstu vikum, en hún hafi áður sagt að hún horfi til margra sameiginlegra þátta. Þannig séu lánakjör mjög hagstæð þessa stundina og þá hafi hún einnig horft til sölu á hlutum ríkisins í Íslandsbanka. Hún ítrekar að horfa þurfi á fjármögnunina bæði til skemmri og lengri tíma.