Við höfum aldrei verið eins vel undirbúin

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á fundinum í dag.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á fundinum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði að hagkerfið hér á landi væri vel búið undir efnahagsleg áföll eins og nú blasa við vegna útbreiðslu kórónuveirunnar með mögulegum tilheyrandi áhrifum á ferðaþjónustu og aðrar greinar atvinnulífsins. Benti hann á að Seðlabankinn ætti 800 milljarða gjaldeyrisforða og að allar undirstöður væru ákaflega sterkar, ólíkt því sem var fyrir rúmlega áratug. Þá sagðist hann ekki hafa áhyggjur af því að lækkun krónunnar myndi hafa mikil áhrif á verðbólgu.

Þetta var meðal þess sem kom fram á kynningarfundi peningastefnunefndar í dag, en áður hafði verið tilkynnt að stýrivextir yrðu lækkaðir um 0,5 prósentustig.

Kerfið allt byggt upp til að geta þolað annað áfall

Ásgeir lagði áherslu á að fjármálakerfið í dag hefði verið byggt upp til að takast á við áföll eins og þetta. „Við höfum aldrei verið eins vel undirbúin undir áfall og núna. Við lentum í áfalli fyrir um 10 árum síðan. Við höfum byggt upp allt kerfið í því augnmiði að geta þolað annað áfall. Þess vegna erum við með 800 milljarða gjaldeyrisforða og þess vegna erum við með banka með eiginfjárhlutföll yfir 20%. Það eru hundruð milljarða í eigin fé inni í bankakerfinu. Þess vegna hefur ríkið lagt áherslu á að greiða niður skuldir. Við erum mjög vel undirbúin til þess að bregðast við,“ sagði hann.

Eina góða við veiruna er að hún er tímabundin

Ásgeir sagði að efnahagsleg áföll væru algeng í sögu Íslands, en að faraldurinn núna væri öðruvísi en í mörg fyrri skiptin. „Eina góða við veiruna er að þetta er faraldur sem er tímabundinn.“ Benti hann á að á árunum 1967-1968 þegar síldin hafi horfið hafi hún ekki komið aftur í 30 ár. Hins vegar sé viðbúið að faraldurinn standi aðeins yfir í stuttan tíma.

Benti Ásgeir á að undanfarið hafi viðskiptaafangur verið í sögulegu hámarki og meðal annars orsakað að lífeyrissjóðir gátu fært mikið fé utan án þess að það hefði áhrif á gengið. Við förum inn í þetta áfall með gríðarlega mikinn viðskiptaafgang. Erum með borð fyrir báru.“

Telur ekki líkur á að sig krónunnar ýti undir verðbólgu

Var hann spurður hvort sig krónunnar undanfarna daga væri einhvers konar hættumerki og jafnvel fyrirboði um hærri verðbólgu. Svaraði hann því til að ekki væri óeðlilegt í alþjóðlegum hremmingum að fjárfestar færðu fé í auðseljanlega gjaldmiðla eins og evru sem hefði styrkst síðustu daga. Sagðist hann ekki telja að hreyfingar núna á krónunni hefðu áhrif á verðbólgu þar sem allar undirstöður hagkerfisins væru ákaflega sterkar og nefndi í því samhengi gjaldeyrismarkaðinn, vöruskipti, útflutning og viðskiptajöfnuð. „Hvort krónan er 5% hærri eða lægri skiptir ekki öllu máli í heildarsamhenginu,“ sagði Ásgeir.

Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu, og Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sátu fyrir …
Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu, og Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sátu fyrir svörum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Á fundinum var Ásgeir einnig spurður út í hverju hann ætti von um að lækkun vaxta myndi skila, út í samvinnu við stjórnvöld og hvernig Seðlabankanum litist á þær aðgerðir sem kynntar voru í gær af ríkisstjórninni.

Vaxtalækkunin lóð Seðlabankans á vogaskálarnar

Sagðist Ásgeir hafa mikla trú á vaxtatækinu, sérstaklega í ljósi þess að íslenskir bankar væru að miklu leyti að þjónusta atvinnulífið og skuldir fyrirtækja væru að stórum hluta með breytilegum vöxtum. Sagði hann að vaxtabreytingin ætti því að koma sér vel, þótt áhrifanna gætti ekki alveg strax. Sagði hann að þótt vaxtabreytingin myndi ekki breyta heildarmyndinni á 2-3 mánuðum væri Seðlabankinn með þessu að leggja lóð á vogaskálarnar með að hjálpa til við fjármögnun og lausafjárstöðu í hagkerfinu.

Ásgeir vildi hins vegar lítið tjá sig um aðgerðir stjórnvalda, en sagði að Seðlabankinn hefði verið í góðum samskiptum við stjórnvöld og meðal annars unnið fyrir þau sviðsmyndir. Þá sagði hann bankann hafa átt í samskiptum við Icelandair og önnur ferðaþjónustufyrirtæki til að fylgjast með stöðunni í ferðaþjónustunni, en Ásgeir sagði að ljóst væri að áhrifin yrðu hörð á öðrum ársfjórðungi, en svo þyrfti að koma í ljós hver áhrifin á þriðja ársfjórðung yrðu, sem væri í raun mikilvægasti ársfjórðungurinn fyrir ferðaþjónustuna. „Það skiptir miklu hvernig hann kemur út.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK