Tryggja þarf súrefni til hagkerfisins innanlands á komandi mánuðum þar sem afar ósennilegt er að opnast muni fyrir flæði fólks til og frá landinu fyrr en hægt verður að bólusetja fólk gegn kórónuveirunni. Þetta segir Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins. Hún er gestur Viðskiptapúlsins, hlaðvarps ViðskiptaMoggans, sem nálgast má hér að neðan.
Sérfræðingar hafa bent á að bóluefni við kórónuveirunni verði sennilega ekki tilbúið fyrr en að ári liðnu.
Bendir Lilja á að samfélög um víða veröld standi nú frammi fyrir smitsjúkdómi sem ógni heilsu og lífi fólks og að leggja verði höfuðáherslu á að kveða hann niður. Hins vegar sé mjög mikilvægt samhliða þeim aðgerðum að örva innlenda hagkerfið.
„Núna er það svo að við munum ekki sjá fram á að fá erlenda ferðamenn um nokkra hríð vegna þess að í þessari krísu verða takmarkanir á fólksflutningum vegna þessarar heilbrigðisvár sem við erum að fást við. Við verðum að einblína mjög á innlenda hagkerfið okkar. Hvernig við eflum innlenda eftirspurn og einkaneyslu.“
Segir Lilja að sterk staða íslenska þjóðarbúsins, auk þeirra innviða sem hér hafi verið byggðir upp, gefi okkur ástæðu til bjartsýni. Nú sé það eitt helsta verkefni okkar að byggja upp innlenda ferðaþjónustu sem hafi allar forsendur til að blómstra. Bendir hún í því sambandi á að opinber söfn búi sig undir mikla og góða aðsókn þegar samkomubanni verður aflétt hér á landi.
Lilja segir að umfangsmiklar ferðatakmarkanir fram að bólusetningu geri það að verkum að hagkerfið verði að hálfu lokað og hálfu opið. Lífsnauðsynlegt sé að tryggja snurðulaus vöruviðskipti milli landa, bæði til þess að koma íslenskum framleiðsluafurðum á markaði erlendis en einnig til að tryggja aðföng hingað til lands.
„Við þurfum að standa mjög vel að þeim því þau skipta ofboðslegu máli,“ segir Lilja.
Styrkur íslensks efnahagslífs geri það einnig að verkum að þegar hagkerfin vakni aftur til lífsins þurfi að nýta tækifærin til fulls. Það verði bæði gert með því að efla menntun, vísindastarf og nýsköpun og þar muni íslensk matvælaframleiðsla einnig leika lykilhlutverk.
Segir Lilja að nú skipti mestu máli að nýta tímann og fjármuni vel til þess að þeir undarlegu tímar sem nú séu uppi fari ekki til spillis.