Fyrirsjáanlegt atvinnuleysi upp á að minnsta kosti 17% kallar á aðgerðir stjórnvalda sem aldrei yrði gripið til við aðrar aðstæður. Þetta segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, í samtali við Viðskiptapúlsinn, hlaðvarp ViðskiptaMoggans, sem nú er aðgengilegt hér að neðan og á helstu hlaðvarpsveitum.
Segir hann að höggið sem íslenskur vinnumarkaður hafi nú orðið fyrir geri það að verkum að fella verði niður opinber gjöld á fyrirtæki um ákveðinn tíma. Þar segist hann horfa sérstaklega til tryggingagjaldsins sem letji mjög fyrirtæki til að viðhalda ráðningarsambandi eða ráða fólk til vinnu.
„Ef markmiðið er að halda sem flestum í vinnu þá er þetta mjög neikvæður hvati þetta tryggingagjald.“
Hann segir sömuleiðis að leita þurfi leiða til að koma í meira mæli til móts við einyrkja og minni fyrirtæki sem hafi orðið út undan í fyrri tillögum ríkisstjórnarinnar. Næsti aðgerðapakki hennar verður að öllum líkindum kynntur strax upp úr helginni.
Þá segir Sigmundur Davíð áður kynntar aðgerðir hafa verið of litlar að umfangi, of flóknar og sértækar.
„Það er ekki verið að teikna upp sviðsmyndir sem eru þó ágætar vísbendingar um hvernig hlutirnir geti orðið og ráðstafanir gerðar til að bregðast við þeim eftir því hvernig þær þróast heldur að sjá hvað hefur gerst og bregðast við því.“
Hann bendir sömuleiðis á að það sé of þröng skilgreining á stöðu fyrirtækja í vanda að þau hafi glatað 40% af tekjum sínum vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.
„…hver er hvatinn í því? Hann er ekki sá að reyna að hámarka tekjurnar og lifa af heldur að komast yfir viðmiðið til að fá þessa fyrirgreiðslu.“
Segir hann að fyrirgreiðsla stjórnvalda þurfi að byggjast á grundvallarviðmiðum, fáum og einföldum, en segir þó að afnám tryggingagjalds eigi ekki að ná til allra fyrirtækja. Það þurfi ekki að rétta netverslunum eða matvöruverslunum hjálparhönd enda hafi þessi fyrirtæki ekki orðið fyrir alvarlegu höggi eins og mörg önnur.
Sigmundur Davíð segir hins vegar að viðmiðin sem sett hafi verið fram í síðasta aðgerðapakka um það hvaða fyrirtæki uppfylltu skilyrðin séu svo flókin að skattayfirvöld, sem hafi það verkefni að fara yfir stöðu fyrirtækjanna, muni ekki ná að greiða úr stöðunni fyrr en að vikum eða mánuðum liðnum. Þegar því verði lokið verði mörg fyrirtækjanna ekki lengur starfandi.
Sigmundur Davíð segir að yfirlýsingar fjármálaráðherra um mögulegan halla ríkissjóðs upp á ríflega 100 milljarða standist ekki skoðun. Mun líklegra sé að hallinn muni nema að minnsta kosti 300 milljörðum króna á árinu. Tekjur muni dragast verulega saman á sama tíma og útgjöld muni aukast gríðarlega.
Hann segir að það sé ákveðið ljós í myrkrinu að ríkissjóður sé það skuldléttur um þessar mundir að mögulegt sé að grípa til þessara aðgerða án þess að kafsigla stöðu hins opinbera. Mörg lönd sem hafi orðið illa fyrir barðinu á kórónuveirunni séu ekki í þeirri stöðu. Verða að átta sig á raunverulegri stöðu hagkerfisins.
Sigmundur Davíð segir að nú sé það verkefni forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar að leiða alla hagsmunaaðila að borðinu. Oft sé litið til þjóðarsáttarsamninganna sem undirritaðir voru í upphafi 10. áratugar síðustu aldar. Nú sé þörf á að ná breiðri samstöðu af því tagi.
Það valdi hins vegar ákveðnum áhyggjum að ákveðnir aðilar á vettvangi íslensks vinnumarkaðar tali eins og það ástand sem nú er uppi komi þeirra umbjóðendum ekki við. Umfang þessara efnahagsþrenginga sé slíkt að enginn verði ósnertur af þeim og allir þurfi að leggjast á árarnar til þess að koma samfélaginu upp úr erfiðleikunum.