Fara í þrot ef þau þurfa að greiða uppsagnarfrest

„Þetta er ekki spurning um það hvort við komumst hjá …
„Þetta er ekki spurning um það hvort við komumst hjá kostnaði eða þurfum að leggja í kostnað, hvort þetta verði okkur dýrt eða ekki dýrt. Þessi efnahagskreppa mun alltaf verða okkur dýr,“ segir Jóhannes. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jó­hann­es Þór Skúla­son, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka ferðaþjón­ust­unn­ar, seg­ir að fyr­ir­tæki í ferðaþjón­ustu þurfi enn meiri stuðning til þess að standa und­ir launa­kostnaði og munu mörg hver fara í þrot ef þau þurfa að greiða upp­sagn­ar­frest.

Að sögn Jó­hann­es­ar er það að að bjarga ferðaþjón­ust­unni besta leiðin til að halda í þau lífs­kjör sem Íslend­ing­ar hafi van­ist á síðastliðnum tíu árum. Þá sé minni sam­fé­lags­leg­ur kostnaður fólg­inn í því að bjarga fyr­ir­tækj­un­um en í því að leyfa þeim að fara í þrot og byggja þau aft­ur upp síðar meir.

„Launa­greiðslur eru lang­stærsti kostnaðarliður fyr­ir­tækj­anna. Þó hluta­bóta­leiðin hafi lofað góðu og sé mik­il­væg þá er kannski ekki nema lít­ill hluti fyr­ir­tækj­anna sem get­ur nýtt sér hana eitt­hvað áfram ein­fald­lega vegna þess að lausa­fé inn­an þeirra er af mjög skorn­um skammti. Þau eiga ekki fé til þess að greiða þriggja mánaða upp­sagn­ar­frest í stór­um stíl sem þýðir að þá fara þau ein­fald­lega í gjaldþrot ef þau þurfa að gera það,“ seg­ir Jó­hann­es.

Ferðamönnum hefur fækkað mikið um allan heim.
Ferðamönn­um hef­ur fækkað mikið um all­an heim. mbl.is/Ó​mar Óskars­son

Vand­inn er djúp­ur og lang­ur

Hann tel­ur að skiln­ing­ur stjórn­valda á vanda ferðaþjón­ust­unn­ar sé tölu­verður og að um­mæli ferðamálaráðherra, um að minnst tíu aðgerðapakka megi alls vænta frá rík­is­stjórn­inni vegna efna­hags­legra af­leiðinga kór­ónu­veirunn­ar, séu til marks um að stjórn­völd líti á að verk­efnið, að koma Íslandi upp úr efna­hags­lægðinni, sem mikið og stórt þó tíu pakka sé kannski ekki að vænta. 

„Mér finnst að skiln­ing­ur stjórn­valda sé tölu­verður á þessu og vil trúa því að það muni finn­ast leiðir til að taka á þess­um vanda. Það er al­veg ljóst að menn gera sér grein fyr­ir því að vand­inn er djúp­ur og lang­ur. Það sem skipt­ir máli er með hvaða hætti stjórn­völd sjá sér kleift að bregðast við,“ seg­ir Jó­hann­es.

Sveit­ar­fé­lög­in þurfi að koma að borðinu

Jó­hann­es ger­ir ráð fyr­ir að aðgerðir stjórn­valda verði í sam­ræmi við stærð verk­efn­is­ins en ferðþjón­ustu­fyr­ir­tæki sem og formaður Sam­taka ferðaþjón­ust­unn­ar hafa lýst yfir óánægju með þær aðgerðir sem stjórn­völd hafa sett fram hingað til. 

„Stjórn­völd þurfa að taka ákv­arðanir sem taka á þess­um sér­tæka vanda ferðaþjón­ust­unn­ar til að gera fyr­ir­tækj­un­um kleift að lifa af, það er að segja eins mörg­um og mögu­legt er þannig að við höf­um hér at­vinnu­grein en ekki bara fyr­ir­tæki á stangli þegar við för­um að slá í klár­inn aft­ur.“

Hann bæt­ir því við að ferðaþjón­ustu­fyr­ir­tæki verði að geta lagt niður stór­an hluta starf­semi sinn­ar án þess að fara í þrot svo þau geti lifað lægðina af. Jó­hann­es seg­ir að nauðsyn­legt sé að sveit­ar­fé­lög­in komi inn með skýr­ari hætti til þess að aðstoða ferðaþjón­ustu­fyr­ir­tæk­in. 

„Ég tel að það sé mjög mik­il­vægt að sveit­ar­fé­lög­in stígi inn með mun skýr­ari hætti en þau hafa gert hingað til varðandi fast­eigna­gjöld og fast­eigna­skatta sem eru til dæm­is mjög stór kostnaðarliður hjá þeim fyr­ir­tækj­um sem halda úti mikl­um fast­eign­um.“ 

Efna­hagskrepp­an verður alltaf dýr

Þá þurfi stjórn­völd að gera fyr­ir­tækj­um inn­an ferðaþjón­ust­unn­ar kleift að loka og bíða af sér efna­hags­lægðina án þess að þau þurfi að fara í þrot, að sögn Jó­hann­es­ar. Hann seg­ir alltaf hægt að benda á að lausn­irn­ar verði kostnaðarsam­ar fyr­ir ríkið og sveit­ar­fé­lög­in.

„Þetta er ekki spurn­ing um það hvort við kom­umst hjá kostnaði eða þurf­um að leggja í kostnað, hvort þetta verði okk­ur dýrt eða ekki dýrt. Þessi efna­hagskreppa mun alltaf verða okk­ur dýr. Spurn­ing­in er bara hvort við leggj­um í kostnað í dag, í upp­hafi, sem ger­ir okk­ur þá kleift að minnka heild­ar­kostnaðinn þegar upp er staðið.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK