Hagkerfið gæti dregist saman um um það bil 9% á þessu ári ef forsendur greiningar sem fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur unnið sem miða að því að varpa ljósi á mögulega stærðargráðu áfallsins sem hagkerfið stendur frammi fyrir vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.
„Greining ráðuneytisins byggir á raunhæfum en nokkuð svartsýnum forsendum um dýpt kreppunnar,“ segir í frétt á vef Stjórnarráðsins. Niðurstöður hennar fela ekki í sér spá um líklegustu framvindu efnahagsmála heldur sviðsmynd um mögulega efnahagsframvindu að gefnum forsendum um að ferðamenn skili sér ekki til landsins það sem eftir lifir árs og að árið 2021 sæki 1 milljón ferðamanna landið heim. Til samanburðar gerir nýleg sviðsmynd KPMG ráð fyrir 1,3 milljón ferðamönnum á næsta ári.
Niðurstöður greiningarinnar, sem unnin var 20. apríl, eru á þá leið að hagkerfið gæti dregist saman um u.þ.b. 9% í ár ef forsendur hennar raungerast. Verði það niðurstaðan er um að ræða ívið minni samdrátt en samanlagt árin 2009 og 2010. Þá bendir greiningin til þess að hagkerfið gæti vaxið um 5% strax á næsta ári. Niðurstöðurnar gefa til kynna að einkaneysla gæti dregist saman um 9% í ár en vaxið kröftuglega á því næsta.
Talsverðan hluta samdráttarins má rekja til hruns í neyslu Íslendinga á ferðalögum erlendis sem aðeins var gert ráð fyrir að skili sér að hluta í innlenda neyslu. Útlit er fyrir að fyrr verði undið ofan af sóttvarnaaðgerðum en forsendur sviðsmyndarinnar gerðu ráð fyrir og vísbendingar hafa þegar borist um að samdráttur einkaneyslu gæti reynst minni en niðurstöður greiningarinnar gefa til kynna. Atvinnuleysi yfir árið gæti reynst í tveggja stafa tölu, en hafa ber hugfast að síðan greiningin var unnin hefur hlutastarfaleið stjórnvalda verið framlengd um tvo mánuði. Útlit er fyrir mesta útflutningssamdrátt frá því mælingar hófust en töluverður samdráttur innflutnings kemur í veg fyrir að halli myndist á viðskiptajöfnuði.