Landsbankinn færir niður eignir og tapar 3,6 milljörðum

Landsbankinn
Landsbankinn mbl.is/Hjörtur

Landsbankinn tapaði 3,6 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi, en á sama tíma í fyrra var hagnaður bankans 6,8 milljarðar. Því er um að ræða 10,4 milljarðs króna viðsnúning. Virðisrýrnun útlána er metin 5,2 milljarðar, en var á sama tíma í fyrra einn milljarður.

Rekstrartekjur bankans á fyrstu þremur mánuðum ársins lækkuðu úr 15 milljörðum í fyrra í 3,4 milljarða á þessu ári, en þar spilaði mest inn í fyrrnefnd virðisrýrnun og tap af fjáreignum eins og skuldabréfum og hlutabréfum.

Rekstrarkostnaður bankans lækkaði um 488 milljónir á milli tímabila og nam 6,7 milljörðum króna fyrstu þrjá mánuði ársins, samanborið við 7,2 milljarða króna á sama tímabili árið áður, sem er lækkun um 6,8%. Þar af var launakostnaður 3,8 milljarðar króna samanborið við 3,7 milljarða króna árið áður. Annar rekstrarkostnaður var 2,4 milljarðar króna samanborið við 2,5 milljarða króna á sama tímabili árið áður.

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans.
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans. mbl.is/​Hari

Útlán til einstaklinga og fyrirtækja jukust um 4,4% frá áramótum, eða um rúma 50 milljarða króna en þar af voru um 33 milljarðar króna vegna gengisbreytinga. Innlán hjá Landsbankanum jukust um 47 milljarða króna frá áramótum, sem er 6,7% aukning.

Í tilkynningu frá bankanum er haft eftir Lilju Björk Einarsdóttur, bankastjóra bankans, að 1.250 einstaklingar og fjölskyldur hafi frestað greiðslum á íbúðalánum um sex mánuði, en samtals nema þau útlán um 7% af útlánum bankans til einstaklinga.  Þá hafa yfir 600 fyrirtæki sótt um að fresta afborgunum en útlánin sem um ræðir nema um 8% af útlánum bankans til fyrirtækja.

Lilja segir að útlán til ferðaþjónustu nema tæplega 100 milljörðum, en það er um 8,1% af útlánasafni bankans. Hún segir að ekki sé útséð um endanleg áhrif faraldursins á rekstur bankans, en að telja megi líklegt að minni tekjur viðskiptavina og aukin skuldsetning muni hafa neikvæð áhrif á lánshæfi þeirra sem leiðir til enn meiri virðisrýrnunar útlána. Hún segist hins vegar jákvæð þrátt fyrir þetta. „Landsbankinn er í góðri stöðu til að takast á við þessar aðstæður. Eigið fé bankans nemur rúmlega 244 milljörðum króna, eiginfjár- og lausafjárstaða bankans er sterk og niðurstaða vel heppnaðs skuldabréfaútboðs að fjárhæð 300 milljónir evra í febrúar endurspeglar traust til bankans á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK