Novator ehf., félag í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar, var eini lánveitandi Frjálsrar fjölmiðlunar og helsti bakhjarl fjölmiðilsins. Þetta kemur fram í úrskurði Samkeppnisstofnunar vegna samruna Torgs og Frjálsrar fjölmiðlunar. Samruninn var samþykktur í mars en úrskurðurinn birtur á vef Samkeppniseftirlitsins í gær. Skráður eigandi Frjálsrar fjölmiðlunar var einkahlutafélagið Dalsdalur sem er í eigu Sigurðar G. Guðjónssonar.
Þar kemur fram að Torg sé útgáfufélag Fréttablaðsins og reki fréttavefinn frettabladid.is. Á vef fjölmiðlanefndar sé Torg skráð fyrir eftirfarandi miðlum: Fréttablaðið, frettabladid.is, Markaðurinn, markadurinn.is, Glamour, glamour.is og icemag.is.
Í samrunaskrá segir jafnframt að Torg eigi dótturfélagið Hringbraut fjölmiðla ehf. Starfsemi Hringbrautar sé rekstur sjónvarpsstöðvar í opinni dagskrá með innlenda dagskrárgerð og rekstur frétta- og afþreyingarvefjar, þar sem m.a. sjónvarpsefni sjónvarpsstöðvarinnar sé að finna. Sá rekstur sé fjármagnaður með sölu auglýsinga.
Þá sé Torg prentfélag ehf. einnig dótturfélag Torgs. Enginn rekstur sé í því félagi, en Torg eigi prentsmiðjuna sem prenti Fréttablaðið og DV. Rekstur hennar sé innan Torgs. Torg sé eigandi að 49% hlut í Póstmiðstöðinni ehf. á móti Árvakri hf., útgáfufélagi Morgunblaðsins.
Í samrunaskrá segir að Fréttablaðið sé gefið út í ríflega 75 þúsund eintökum og dreift frítt inn á heimili í þéttbýli sunnanlands og á Akureyri. Torg fjármagni sig með sölu auglýsinga í Fréttablaðið og inn á vefinn, frettabladid.is. Tímaritið Glamour hafi nánast hætt starfsemi.
Torg er í 100% eigu HFB-77 ehf. Í því félagi á Varðberg ehf. í eigu Helga Magnússonar 82% hlutafjár en aðrir hluthafar eru Saffron í eigu Sigurðar Arngrímssonar, sem á 10% hlut, Jón Guðmann Þórisson, ritstjóri Fréttablaðsins, sem á 5% hlut og Guðmundur Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðsmála og dagskrárgerðar hjá Torgi, sem á 3% hlutafjár.
Í samrunaskrá segir að Frjáls fjölmiðlun sé einkahlutafélag og sé tilgangur félagsins samkvæmt samþykktum þess rekstur fjölmiðla sem stundi almenna og sérhæfða fréttamiðlun innanlands sem og erlendis, kaup, sala, rekstur, eignarhald og leiga fasteigna og hvers kyns lausafjár; eignarhald, kaup og viðskipti með verðbréf, fjármálagerninga og hvers kyns önnur fjárhagsleg verðmæti; lánastarfsemi og annar skyldur rekstur.
Frjáls fjölmiðlun sé skráð fyrir fjölmiðlunum DV, dv.is, pressan.is, eyjan.is, bleikt.is, 433.is, dv.is/fokus, dv.is/lifsstill, dv.is/matur og dv.is sjónvarp.
Sú starfsemi sem Torg kaupi af Frjálsri fjölmiðlun sé útgáfa DV og framangreindra vefsíðna. Seldar eignir séu vefsíður sem séu opnar almenningi án greiðslu og vikublaðið DV, sem sé gefið út á fimmtudögum.
Rekstur Frjálsrar fjölmiðlunar hafi verið fjármagnaður með sölu auglýsinga, auk þess sem DV sé helgarblað sem sé selt í lausasölu og til áskrifenda, bæði rafrænt og með því að senda blaðið til áskrifenda.
Í samrunaskrá segir að Frjáls fjölmiðlun sé félag, sem hafi átt við verulega rekstrarerfiðleika að stríða og rekstur þess ekki verið sjálfbær. Tilgangur samrunans sé að reka fleiri stoðir undir starfsemi Torgs.
Vefsíðan dv.is verði rekin áfram og ekki sé gert ráð fyrir öðru en að DV komi áfram út í prentformi, eins og verið hafi.
Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins kemur fram að Torg er stærsti aðilinn í auglýsingasölu þegar horft er á auglýsingar í prentmiðlum. Árvakur, sem rekur m.a. Morgunblaðið og mbl.is, er annar stærsti aðili á þessu sviði og Birtingur sá þriðji. Frjáls fjölmiðlun er fjórði stærsti aðilinn og mun auka markaðshlutdeild Torgs um [0-5]%. Sameinað fyrirtæki verður stærsti aðilinn á þessu sviði, með [60-65]% hlutdeild.
„Með hliðsjón af upplýsingum um markaðshlutdeild á markaði fyrir útgáfu dagblaða eru vísbendingar um að Torg kunni að vera í markaðsráðandi stöðu fyrir samrunann og að hún muni styrkjast í kjölfar hans. Þó virðist aukning samþjöppunar óveruleg, auk þess sem sjónarmið fjölmiðlanefndar og hagsmunaaðila um áhrif samrunans gefa ekki tilefni til að ætla að staða Torgs muni styrkjast það mikið að markaðsráðandi staða styrkist eða samkeppni raskist að öðru leyti með umtalsverðum hætti.
Hér ber einnig að líta til þess að staða DV er afar veik og hlutdeild félagsins lítil. Það, ásamt sjónarmiðum auglýsenda um takmörkuð áhrif samrunans á auglýsingamarkað, leiðir til þess að Samkeppniseftirlitið telur ekki að samruninn raski samkeppni á þessum tiltekna markaði,“ segir í úrskurði Samkeppniseftirlitsins.
Fyrrgreindar upplýsingar gefa vísbendingar um áhrif samrunans á fjölræði en þau eru neikvæð að því leytinu til að dagblaðið DV og vefmiðillinn dv.is, sem starfað hafa sem sjálfstæðir aðilar á markaði, munu renna inn í Torg, sem hefur sterka stöðu þegar litið er til bæði meðallesturs á hvert tölublað og daglegrar dekkunar vefmiðla sem flytja fréttir.
Hins vegar ber hér einnig að líta til sjónarmiða fjölmiðlanefndar sem telur samrunann ekki takmarka fjölræði og fjölbreytni á íslenskum fjölmiðlamarkaði í kjölfar samrunans auk þess sem engin sjónarmið bárust um neikvæð áhrif samrunans að þessu leyti.
Í umsögn fjölmiðlanefndar er jafnframt vísað til þess að fyrirhugaður samruni geti verið til þess fallinn að auka og styrkja samkeppni stærstu fjölmiðlafyrirtækja á hérlendum fjölmiðlamarkaði og gera þau færari til að mæta alþjóðlegri samkeppni frá erlendum frétta- og afþreyingarmiðlum.
„Í þessu sambandi ber einnig að líta til þess að staða fjölmiðla Frjálsrar fjölmiðlunar hefur verið tiltölulega veik og þá sérstaklega útgáfa dagblaðsins DV en prentmiðlar hafa átt undir högg að sækja.
Samrunaaðilar hafa einnig gefið það út að fjölmiðlarnir muni áfram verða reknir með sambærilegu sniði og undir sjálfstæðri ritstjórn. Er það mikilvægt þar sem lesendahópar fjölmiðla Torgs og Frjálsrar fjölmiðlunar eru að ákveðnu leyti ólíkir. Af þeim sökum eru minni líkur á því að samruninn komi til með að hafa skaðleg áhrif á fjölbreytni í fjölmiðlun. Hvað varðar áhrif samrunans á fjölræði, þ.e. eignarhald, þá eru þau takmörkuð þar sem Frjáls fjölmiðlun, eigandi DV fyrir samrunann, er ekki í dreifðu eignarhaldi. Breyting á fjölræði vegna samrunans er því minni háttar að þessu leyti og aðrir ótengdir sterkir fjölmiðlar munu áfram verða starfandi á markaðnum.“
Að gögnum málsins virtum telur Samkeppniseftirlitið ekki forsendur til að ætla að samruni Torgs og Frjálsrar fjölmiðlunar leiði til þess að markaðsráðandi staða myndist eða styrkist, eða að samkeppni verði raskað að öðru leyti með umtalsverðum hætti. Þá mun samruninn ekki hafa skaðleg áhrif á fjölræði og/eða fjölbreytni í fjölmiðlun á þeim mörkuðum sem samrunaaðilar starfa á, sbr. 8. mgr. 62. gr. b. laga um fjölmiðla. Af þeim sökum er það niðurstaða eftirlitsins að ekki séu forsendur til að aðhafast vegna þessa samruna.