Einkaneysluútgjöld erlendra ferðamanna hér á landi námu samtals um 284 milljörðum króna á árinu 2019. Það samsvarar um 21,4% af mældri einkaneyslu hér á landi á síðasta ári (heildareinkaneysla að frádregnum einkaneysluútgjöldum Íslendinga erlendis).
Eins og við má búast voru kaup á veitinga- og gistiþjónustu fyrirferðarmestu útgjaldaliðirnir í tilviki erlendra ferðamanna en þau vógu um 38,4% af heildareinkaneysluútgjöldum þeirra hér á landi á síðasta ári eða rúmlega 109 milljörðum króna á verðlagi ársins. Þar undir fellur bæði gistiþjónusta og kaup á mat og drykk á veitingahúsum.
Tómstundir og menning er næststærsti neysluflokkur erlendra ferðamanna en hann inniheldur m.a. kaup á ýmiss konar afþreyingu sem að öllu jöfnu er veigamikill þáttur í útgjöldum ferðamanna, s.s. aðgangseyrir inn á bað- og sundstaði, skoðunarferðir og kaup á skipulögðum pakkaferðum.
Undir liðnum ferðir og flutningar eru útgjöld tengd samgöngum og þar falla m.a. undir útgjöld vegna leigu á bifreiðum og aðrar greiðslur fyrir samgöngutengda þjónustu, s.s. rútuferðir og kaup á eldsneyti. Alls námu útgjöld erlendra ferðamanna tengd slíkri þjónustu um 45 milljörðum á síðasta ári eða sem nemur um 15,8% af heildareinkaneyslu erlendra ferðamanna hér á landi, að því er segir á vef Hagstofu Íslands.
Tölurnar má skoða nánar hér