Spáir verulegri lækkun stýrivaxta

Hagfræðideild Landsbankans spáir að verðbólga fari yfir markmið og að …
Hagfræðideild Landsbankans spáir að verðbólga fari yfir markmið og að Seðlabankinn muni lækka stýrivexti um 1 prósentustig. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við spáum því að peningastefnunefnd Seðlabankans lækki stýrivexti um 1 prósentustig við næstu vaxtaákvörðun þann 20. maí.“  Þetta segir í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans sem kom út í morgun.

Þar segir að peningastefnunefnd Seðlabankans hafi þrívegis á þessi ári lækkað stýrivexti og nemur lækkunin samtals 1,25 prósentum. Í febrúar hafi nefndin ákveðið að lækka vexti um 0,25 prósentustig.

Síðan þegar efnahagsleg áhrif heimsfaraldursins hafi farið að koma betur í ljós hafi vextir verið lækkaðir tvívegis með viku millibili um miðjan marsmánuð. Meginvextir Seðlabankans eru 1,75% og hafa aldrei verið lægri.

Verðbólga líklegast yfir markmið

Vegna töluverðrar veikingar krónunnar á síðustu mánuðum telja hagfræðingar Landsbankans að verðbólga muni aukast lítillega á næsta ársfjórðungi. Þeir spá því að verðbólgan muni fara upp fyrir markmið á þriðja ársfjórðungi og ná hámarki í 3,5% á fjórða ársfjórðungi.

„Mikill framleiðsluslaki í hagkerfinu og lítils háttar styrking krónunnar á næsta ári mun leiða til þess að verðbólga lækkar niður í markmið á ný. Spá hagfræðideildar gerir ráð fyrir að verðbólga komist aftur í markmið á fjórða ársfjórðungi á næsta ári og verði nálægt markmiði allt árið 2022,“ segir í Hagsjánni.

Seðlabankinn getur lítið aðhafst

„Seðlabankinn getur lítið aðhafst til að bregðast við verðbóluþrýstingi á næstu mánuðum vegna veikingar krónunnar. Þar hafa vaxtabreytingar engin áhrif,“ segir í spánni og þar er tekið fram að engin sérstök ástæða sé til þess að viðhalda jákvæðum vaxtamun við útlönd við núverandi aðstæður af ótta við útstreymi fjármagns erlendra fjárfesta.

Veglegur gjaldeyrisforði Seðlabankans geti auðveldlega mætt slíku útflæði ef það skyldi gera vart við sig. Nú skipti mestu að reyna milda það efnahagslega högg sem kórónuveirufaraldurinn hafði í för með sér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK