Áframhaldandi óvissa í kjaraviðræðum flugfreyja og Icelandair flækir enn stöðu Icelandair, en samningaviðræðurnar verða þó ekki það sem ræður úrslitum um afdrif fyrirtækisins. Þetta segir Jón Karl Ólafsson, fyrrverandi forstjóri Icelandair, í samtali við mbl.is.
Flugfreyjur kolfelldu nýjan kjarasamning í atkvæðagreiðslu sem lauk í dag, en 73% kjósenda greiddu atkvæði gegn samningnum. Hefur Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, sagt að félagið sé algjörlega „komið að sársaukamörkum“ í viðræðum við flugfreyjur.
Þrátt fyrir það reiknar Jón Karl ekki með öðru en að sest verði aftur að samningaborðinu og reynt að leysa deiluna en óvíst sé hve mikið ber í milli. „Maður er búinn að heyra ýmislegt um hvort það sé meira eða minna,“ segir Jón Karl.
Jón Karl segir það mat sitt að á endanum verði ríkið að stíga inn í rekstur félagsins með afgerandi hætti. „Það er eina leiðin sem er fær. Ríki um allan heim hafa þurft að stíga inn í og velja að bjarga félögum,“ segir Jón Karl. Stærri lán og ábyrgðir, hvort sem þau eru veitt með víkjandi ábyrgð eða eignarhlut í félaginu. Bendir hann á að flugfélög um alla álfuna hafi á síðustu vikum fengið ríkisstuðning og má þar nefna British Airways, Lufthansa og SAS.
Ríkisstjórnin hefur nú þegar hefur gefið til kynna vilja til að veita Icelandair lán með ríkisábyrgð sem háður er því að félaginu takist að semja við alla hagaðila fyrir þann tíma og hlutafjárútboð gangi eftir, en Jón Karl telur það ekki munu nægja til.
Hlutafjárútboð Icelandair fer fram í ágúst, en upphaflega stóð til að það hæfist 29. júní. Stefnt er að því að safna um 29 milljörðum króna með auknu hlutafé. Aðspurður segist Jón Karl ekki eiga von á öðru en að það fari fram á tilskildum tíma. „Hins vegar veit ég ekki hvernig það mun ganga, óvissan er svo mikil. En þessi samningur [við flugfreyjur] er ekki það sem veltir þúfunni, í hvora átt sem er.“